Frumvarp um IPA-skattleysi lagt fram

mbl.is/Ómar

Fjármálaráðherra lagði í dag fram frumvarp um að svonefndir IPA-styrkir frá Evrópusambandinu verði ekki skattlagðir hér á landi, í samræmi við samning við ESB þar að lútandi.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um ýmsar undanþágur til að hægt sé að uppfylla rammasamning milli Íslands og framkvæmdastjórnar ESB sem var áritaður í byrjun júlí sl.

Mega ekki vera skattskyldir 

Markmið IPA-styrkja (Instrument for Pre-Accession Assistance) er að styrkja innviði umsóknarríkja ESB, að því er segir í frumvarpinu. Um þessa styrki gildir reglugerð ESB frá 2007 þar sem m.a. er kveðið á um þá meginreglu að IPA-styrkir skuli ekki ganga til greiðslu skatta og gjalda hjá umsóknarríkjum sambandsins. 

Einnig kemur fram að í samningnum frá júlí sl. sé gerð krafa um að IPA-aðstoð renni óskipt til þeirra verkefna sem henni er ætlað að styðja en ekki til greiðslu skatta, tolla eða annarra gjalda af sambærilegum toga. 

Fimm milljarðar

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið  kemur fram að IPA-styrkir til Íslands geti numið allt að 30 milljónum evra eða um fimm milljörðum íslenskra króna vegna tímabilsins 2011 til 2013. Um sé að ræða verkefni samkvæmt sérstakri landsáætlun sem íslensk stjórnvöld hafa gert og ESB fallist á. 

Ekki hefur verið lagt mat á það hvað undanþágur þær sem mælt er fyrir í frumvarpinu gætu þýtt í minni skatttekjum ríkissjóðs frá því sem annars hefði orðið. Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar segir að slíkt mat væri afar erfitt, m.a. vegna þess að ekki lægi fyrir hvernig verk sem unnin verða með IPA-styrkjum muni skiptast á milli innlendra og erlendra aðila.

„Mat á tekjutapi á auk þess tæpast við því IPA-styrkirnir eru veittir með því skilyrði að vera undanþegnir sköttum og opinberum gjöldum og mundu ekki berast ef ekki kæmi til skattfrelsið. Má frekar gera ráð fyrir því að ríkissjóður muni hafa tekjur af þessum styrkjum með óbeinum hætti ef ESB-verktakar verða innlendir aðilar,“ segir í umsögninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert