Fagna fullveldisdeginum

Stúdentar lögðu blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar í morgun
Stúdentar lögðu blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar í morgun mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stúdentar lögðu blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar í Hólavallakirkjugarði í morgun líkt og venja er á fullveldisdaginn. Stúdentar við Háskóla Íslands hafa haldið fullveldisdaginn hátíðlegan allt frá árinu 1922.

Voru bæði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, viðstödd. Guðfinnur Sveinsson, stúdent við Háskóla Íslands, flutti hugvekju og hópur úr Háskólakórnum söng lag.

Hátíðahöld stúdenta halda svo áfram á Háskólatorgi kl. 12:00. Þar mun forseti Íslands ávarpa gesti, Félagsstofnun stúdenta afhendir styrki og Gleðisveit lýðveldisins leikur m.a. jólalög.

Í ár fagnar Háskóli Íslands aldarafmæli sínu og 89 ár eru liðin frá því stúdentar héldu 1. desember í fyrsta sinn hátíðlegan. Af því tilefni vill Stúdentaráð hvetja alla stúdenta Háskóla Íslands fyrr og síðar til að hugsa til stúdentsáranna og rita minningar og vangaveltur um þau á nýja síðu, www.student.is/studentsarin. Síðan verður formlega opnuð í dag.

Eftir hádegið, kl. 13:00, efnir Háskóli Íslands í fyrsta sinn til hátíðar brautskráðra doktora í hátíðarsal aðalbyggingar. Þar munu þeir doktorsnemar sem varið hafi ritgerðir sínar við Háskóla Íslands undanfarið ár taka við gullmerki háskólans að viðstöddum forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðherra, rektor háskólans, forsetum fræðasviða og deildarforsetum. Stefnt er að því að hátíðin verði árlegur viðburður hér eftir.

Doktorsnám við Háskóla Íslands hefur verið eflt verulega síðustu ár og fjöldi brautskráðra doktora hefur margfaldast á örfáum árum. Á aldarafmælinu munu 50 doktorsvarnir fara fram og hafa þær aldrei verið fleiri á einu ári, segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert