Fréttaskýring: Hafa búið lengi við mjög kröpp kjör

Matarpakkar tilbúnir til úthlutunar hjá Mæðrastyrksnefnd.
Matarpakkar tilbúnir til úthlutunar hjá Mæðrastyrksnefnd.

„Í samanburði við önnur lönd stendur Ísland þó nokkuð vel, en við vitum að það er hér hópur sem stendur óskaplega illa og við þurfum að finna leiðir til að nálgast þann hóp því þessi almennu úrræði, þau duga ekki til,“ segir Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og formaður EAPN á Íslandi, evrópskra samtaka gegn fátækt.

Kreppan hefur nú varað í rúm þrjú ár og ljóst að margir búa við mjög kröpp kjör. Þegar líður að jólum bítur fátæktin jafnvel enn sárar en alla jafna enda má fjárhagurinn varla við þeim aukaútgjöldum sem felast í því að gera sér glaðan dag, hjá þeim sem minnst hafa milli handanna og eiga ekki upp á varasjóð að hlaupa.

Undirliggjandi skekkja í samfélaginu

Samkvæmt tölum sem OECD birti í október búa um 8,3% barna á Íslandi við fátækt, en undanfarin ár hefur barnafátækt mælst meiri en heildarfátækt hér á landi. Þeim sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði hefur fjölgað mjög frá hruni og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til einstaklinga hefur aukist um 62% frá 2006.

Á sama tíma fer þó ekki á milli mála að margir hafa það mjög gott þrátt fyrir kreppu, að minnsta kosti ef marka má aukna neyslu og jólagjafaverslunarferðir til útlanda sem dæmi. Aðspurð vill Vilborg ekki segja til um hvort gjáin í lífsgæðum almennings sé að breikka.

„Mín tilfinning er sú að það sé þarna hópur, sem var illa settur fyrir kreppu, og hann er verr settur í dag. Sumir hafa búið mjög lengi við kröpp kjör og stjórnvöld þurfa að beina úrræðum sérstaklega til þessa hóps.“ Bjarni Karlsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju og fulltrúi í velferðarráði Reykjavíkur, er á sama máli. „Eftir hrunið hefur dregið svolítið saman með hópum á vissan máta, þannig að öfgarnar eru minni. En það sem er athyglisvert er að þetta er um það bil sami hópurinn fyrir hrun og eftir hrun sem við höfum einhvern veginn fastan í fátækt. Ég hallast að því að það sé einhver undirliggjandi skekkja í okkar samfélagi sem gerir það að verkum að í rauninni sé fátækt skipulögð, í þeim skilningi að við virðumst una því ágætlega sem þjóð að hafa lítinn hóp fátækan.“ Bjarni segir að þetta verði hins vegar að breytast. „Og við getum breytt þessu, vegna þess að við erum svo lánsöm að lifa í ríku samfélagi sem er yfirsjáanlegt. Við þekkjum hvert annað og fólkið sem lifir við skort á Íslandi er það fátt, nokkur þúsund manneskjur, að það er nánast hægt að banka upp á hjá þeim. Svo hvers vegna breytum við þessu ekki?“

Oktavía Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi hjá Félagi einstæðra foreldra, segir það árvissan atburð í desember að einstæðir foreldrar leiti til þeirra með áhyggjur af jólahaldinu. Það hafi aukist eftir hrun og fari síst minnkandi.

„Þetta er raunverulegur kvíði sem sækir að fólki og það er mjög erfitt því það getur smitast yfir á börnin. Ég held að núna hafi það verið strax í fyrri hluta október sem fór að bera á þessu, sem er óvenjusnemmt og sýnir bara að þetta hvílir þungt og lengi á fólki.“ Oktavía segir viðkvæmastan þann hóp sem búi við lágar tekjur og geti ekki sótt stuðning til ættingja.

Samfélagið vakir betur yfir þeim fátæku

Hjá sumum fari yfir helmingur teknanna í að hafa þak yfir höfuðið og þá sé lítið eftir til að mæta auknum útgjöldum. „Þó að einstæðir foreldrar fái húsaleigubætur þá er húsnæði samt svo dýrt. Það fæst engin þriggja herbergja íbúð á undir 150 þúsund kr. í dag og það er mjög erfitt fyrir fólk sem er með lægstu launin, á atvinnuleysisbótum eða framfærslu sveitarfélaga og þarf að sjá fyrir börnum.“

Þótt fátækt hafi dýpkað virðist kreppan þó hafa haft þær jákvæðu afleiðingar að opna á umræðuna og auka meðvitund fólks um fátækt, ef marka má reynsluna hjá Hjálparstarfi kirkjunar. Eftir að kreppan skall á held ég að samfélagið sé meira vakandi,“ segir Vilborg. „Núna má ræða þetta og það eru fleiri en áður sem vísa fólki til okkar, hringja fyrir fólk eða koma jafnvel með því. Ég held að það séu færri núna en áður sem við náum ekki til.“

Spurt&svarað

Hvað er fátækt?

Engin ein skilgreining er til á fátækt en í nútímasamfélagi er gjarnan talað um að fátækt felist í því að upplifa skort í samanburði við aðra. Fátækt stafi því ekki endilega af því að eitthvað vanti, heldur af því að samfélagslegum gæðum sé misskipt.

Við hvað er miðað?

Á Íslandi hafa ekki verið gerðar kerfisbundnar mælingar á fátækt, en Hagstofa Íslands notast við hugtakið lágtekjumörk og byggir á skilgreiningu Evrópusambandsins. Evrópusambandið reiknar fátækt þannig að einstaklingur skuli teljast fátækur ef tekjur hans eru lægri en 60% af miðgildi ráðstöfunartekna landa hans. OECD miðar við 50%. Hagstofan áætlaði að árið 2010 lifðu 29.700 einstaklingar, eða 9,8% Íslendinga, undir lágtekjumörkum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert