Sakar Ingimar um skáldskap

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Kristinn

Björgólfur Thor Björgólfsson segir að Ingimar Haukur Ingimarsson fari með rangt mál í nýútkominni bók sinni, Sagan sem varð að segja, hvað varðar örlög fyrirtækisins Baltic Bottling Plant í Pétursborg á tíunda áratug sl. aldar. Björgólfur segir bókina vera skáldsögu af viðskiptum.

Þetta kemur fram á heimasíðu Björgólfs.

Ingimar fer hörðum orðum um fyrrverandi viðskiptafélaga sinn Björgólf Guðmundsson, föður Björgólfs Thors, í bókinni. Ingimar hefur sagt að Björgólfur eldri hafi hótað sér og reynt að múta þegar umdeild viðskipti þeirra í Pétursborg hafi verið fyrir dómstólum. Hann sakar Björgólf um að hafa falsað pappíra til að ná af honum verksmiðju í Rússlandi.

„Hið rétta er að félagið var ólöglega stofnað þar sem Ingimar Haukur og félagi hans sviku um greiðslu hlutafjár. Síðan bjuggu þeir til fléttu viðskipta við aflandsfélög í þeirra eigu sem saug peninga út úr rekstri BBP. Eftir tvö erfið ár í rekstri og vanefndir og svik þeirra félaga blöstu við, ákvað Ingimar Haukur að selja fyrirtækið enda var hann þá með hugann við önnur verkefni í Pétursborg,“ skrifar Björgólfur Thor.

„Þegar hann fann síðan þefinn af velgengni verksmiðjunnar eftir að hann hafði selt hana reyndi hann með ýmsum hætti að teygja sig í hluta ávinningsins. Ávirðingum og aðdróttunum Ingimars Hauks verður svarað með ítarlegum hætti þegar færi hefur gefist á að fara yfir gögn þessa 17 ára gamla máls og ef tilefni þykir þá til,“ skrifar hann ennfremur.

Þá kom fram í Kastljósi kvöldsins að Björgólfur Thor hafni því alfarið að hafa nokkurn tímann átt í viðskiptum með fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Pútíns.

Í þættinum kom fram að í skýrslu sem breska rannsóknarfyrirtækið KROLL hefði gert um viðskipti Björgólfs Thors árið 2006 væri því haldið fram að hann hefði byggt viðskiptaveldi sitt upp með samvinnu við spillta rússneska stjórnmálamenn, sem KROLL telji að hafi jafnvel verið meðeigendur að bjórverksmiðju Björgólfsfeðga. Þetta hafi gerst fyrir milligöngu dansks lögmanns. Fram kom að Björgólfur vildi ekki upplýsa um meðeigendur feðganna í verksmiðjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert