Áfram í haldi lögreglu

mbl.is/Eggert

Karl á þrítugsaldri hefur á grundvelli rannsóknarhagsmuna verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 8. desember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á skotárás í austurborginni föstudaginn 18. nóvember sl.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir öðrum manni sem einnig er grunaður um að hafa tekið þátt í skotárásinni. Er honum einnig gert að sæta gæsluvarðhaldi til 8. desember nk. Sá maður var handtekinn 28. nóvember og úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 29. nóvember í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Maðurinn neitaði við skýrslutöku hjá lögreglu allri aðild að málinu.  Hann geti hins vegar ekki gert grein fyrir ferðum sínum 18. nóvember með öðrum hætti en að hafa verið á „þvælingi.”  Hann kveðst daglega nota amfetamín og Mogadon og kveðst ekki muna hvar hann hafi verið staddur um kl. 20:00 þennan dag.   Hann kveðst ekkert hafa hitt mann sem einnig er talinn bera ábyrgð á árásinni eftir árásina.

Maðurinn er að sögn lögreglu undir rökstuddum grun um aðild að tilraun til manndráps.  Hann er á reynslulausn vegna fyrri dóma fyrir ofbeldisbrot, en hann eigi að baki þó nokkurn sakarferil. Hann hafi m.a. hlotið 3 ára fangelsisdóm í mars 2007, fyrir margvísleg ofbeldisbrot, þ. á m. fyrir að hafa klippt fingur af manni, honum hafi verið veitt reynslulausn 21. desember 2010 í 2 ár á eftirstöðvum 264 daga refsingar.  Ljóst sé, verði hann sekur fundinn, að með þessu broti hafi hann rofið almennt skilorð reynslulausnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert