Stjórnvöld í viðræðum við Nubo

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Íslensk stjórnvöld eiga í viðræðum við kínverska fjárfestinn Huang Nubo um með hvaða hætti hann geti fjárfest í íslenskri ferðaþjónustu. Þetta kom fram í viðtali við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra í kvöldfréttum RÚV.

Iðnaðarráðuneytið vill leiðbeina honum í gegnum íslenskt lagaumhverfi en haft hefur verið samband við hann í gegnum fjárfestingarstofu. „Það sem framundan er er að við munum ræða saman á næstunni um það með hvaða hætti hann getur komið hingað til lands með fjárfestingar í ferðaþjónustu“ sagði Katrín í viðtalinu.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, sem komst að þeirri niðurstöðu í nóvember að Nubo væri óheimilt að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, sagði í samtali við mbl.is að sér væri ekki kunnugt um þessar fyrirætlanir iðnaðarráðuneytisins.

„Ef hann [Huang Nubo] er núna að óska eftir jarðakaupum sem einstaklingur þá er það nýtt í stöðunni, en hefði ekki breytt hinu að mínu mati að undanþágubeiðni frá þeirri almennu reglu sem er við lýði að jarðarkaup einstaklinga utan EES eru ekki heimil. Hinsvegar er einstaklingum og fyrirtækjum heimilt að fjárfesta í atvinnulífi á Íslandi og ef þetta snýst um það þá er ekkert nema gott um það að segja,“ segir Ögmundur.

„Við höfum dæmi þess að fyrirtæki hafi farið á bak við hina almennu lagareglu með því að leggjast ofan í skúffur innan EES-svæðisins og vísa ég þar til Magma-fyrirtækisins sem komst með slíkum hætti inn í fjárfestingar hér. Ég ætla að menn séu ekki að hugsa um eitthvað slíkt en auðvitað eru fjárfestar velkomnir hingað ef þeir gera það í samræmi við íslensk lög,“ segir Ögmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert