Tíu þúsund skora á Alþingi að setja ESB-umsóknina á ís

Reuters

Rúmlega 10 þúsund undirskriftir hafa nú safnast á vefsíðuna Skynsemi.is þar sem skorað er á Alþingi að leggja til hliðar umsóknina um aðild að Evrópusambandinu en söfnunin hófst í september síðastliðnum.

„Þetta er góð tala og sérstaklega í ljósi þess að þetta hefur algerlega vaxið af sjálfu sér án þess að það hafi verið auglýst neitt að ráði. Það hefur stöðugt bæst við þetta á hverjum degi þannig að þetta hefur bara gengið vel,“ segir Frosti Sigurjónsson, einn af þeim sem standa að undirskriftasöfnuninni.

Hann segir að umræðan hér á landi um Evrópumálin snúist að miklu leyti um það hvort ekki sé réttast að leggja umsóknina til hliðar og þá ekki síst vegna þess að ESB hafi tekið miklum breytingum síðan hún var send sumarið 2009. Hann segir að það ESB sem sótt hafi verið um aðild að sé í raun ekki lengur til.

„Kanslari Þýskalands segir að það muni taka mörg ár fyrir ESB að vinna úr sínum málum og forystumenn innan þess tala um að koma þurfi á einhvers konar sambandsríki til þess. Við sóttum ekki um aðild að því og því hlýtur sú spurning að vakna hvort forsendurnar fyrir aðildarumsókninni séu ekki brostnar,“ segir Frosti og spyr hvort ekki sé rétt að leyfa sambandinu að vinna úr sínum málum og sjá síðan til hvað komi út úr því.

Frosti segir að stefnt sé að því í janúar, væntanlega þegar þingið kemur saman að loknu jólaleyfi, að afhenda þær undirskriftir sem þá hafi safnast.

Vefsíða undirskriftasöfnunarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert