Íhuga kvörtun vegna ummæla

Lögmannafélag Íslands tekur ekki efnislega afstöðu til ummæla Sveins Andra …
Lögmannafélag Íslands tekur ekki efnislega afstöðu til ummæla Sveins Andra Sveinssonar. mbl.is/Ómar

Stjórn Lögmannafélags Ísland tekur ekki efnislega afstöðu til þess hvort að hæstaréttarlögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson hafi brotið siðareglur félagsins með ummælum á Facebook-síðu sinni. Eftir því var óskað í opnu bréfi til félagsins en bréfritarar íhuga nú formlega kvörtun til úrskurðarnefndar félagsins.

Það voru þeir Agnar Kristján Þorsteinsson og Ísak Jónsson sem sendu Lögmannafélaginu opið bréf vegna ummæla Sveins Andra. Vísuðu þeir til eftirfarandi skrifa Sveins Andra um kæru stúlku á hendur Agli Einarssyni fyrir nauðgun:

„Femínistar hata Egil Gilz. Móðir stúlkunnar sem kærði viku eftir atvikið er í þeim hópi og áhrifamaður í VG. Tilviljun? Kannski. Ég hef aldrei verið trúaður á tilviljanir.“

Á bloggsíðu Agnars Kristjáns birta þeir bréfritarar svar Lögmannafélagsins. Þar segir að Ingimar Ingason, framkvæmdastjóri þess, hafi kynnt stjórn félagsins bréfið. Hún hafi þá falið honum að upplýsa bréfritara um þær reglur sem gilda um slíkar kvartanir.

Sjálfstæð úrskurðarnefnd lögmanna fari með mál vegna meintra brota lögmanna á lögum eða siðareglum. Fyrir þá úrskurðarnefnd geti þeir sem telja lögmann hafa í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríðir gegn lögum eða siðareglum, lagt fram kvörtun.

Segja bréfritarar í yfirlýsingu sinni að svarið valdi þeim vonbrigðum þar sem þeir hafi talið fullt tilefni til þess að Lögmannafélagið tæki sjálft afstöðu í málinu.

„Við munum því í framhaldi skoða næstu skref og athuga hvort sú leið sé okkur fær að leggja fram formlega kvörtun til úrskurðarnefndar Lögmannafélagsins auk þess sem við skorum á þá sem brotið er á í þessu tilviki að gera slíkt hið sama,“ segir í yfirlýsingu þeirra Agnars Kristjáns og Ísaks.

Svar Lögmannafélagsins á bloggsíðu Agnars Kristjáns Þorsteinssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert