Skref áfram í viðræðum við ESB

Össur Skarphéðinsson á fundinum í Brussel í dag.
Össur Skarphéðinsson á fundinum í Brussel í dag. Reuters

Ísland tók „skref fram á við“ í aðildarviðræðum að Evrópusambandinu í dag, að því er segir í tilkynningu frá ESB. Tilefnið er fundur Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra með Stefan Füle stækkunarstjóra ESB, en á honum voru nokkrir kaflar í viðræðunum afgreiddir og nýr kafli opnaður.

Þetta var þriðja ríkjaráðstefna í samningaviðræðum Íslands og ESB og hafa nú alls 11 kaflar af 35 verið opnaðir og þar af 8 verið lokað. Þeir samningskaflar sem lokað var í dag vörðuðu fyrirtækjalög, atvinnu- og iðnaðarstefnu, evrópsk samgöngunet og réttarvörslu og grundvallarréttindi. Þá var opnaður kaflinn sem snýr að fjárhags- og framlagsmálum. Í yfirlýsingu ESB segir að frekari árangri þurfi að ná áður en unnt verði að loka þeim kafla.

„Fundurinn í dag markaði annað mikilvægt skref fram á við í samningaviðræðum við Ísland og Evrópusambandið hrósaði Íslandi fyrir þann árangur sem náðst hefur á árinu,“ segir í yfirlýsingu frá sambandinu.

Á síðustu ríkjaráðstefnu sem fram fór í Brussel í október var viðræðum um tvo samningskafla lokið. Í kjölfarið heimsótti Stefan Füle Ísland og sagði utanríkisráðherra þá á fundi með stækkunarstjóranum að Ísland væri reiðubúið að opna allt að helming allra kafla fyrir áramót. Jafnframt að mikilvægt væri að opna aðra samningskafla sem fyrst á fyrri hluta næsta árs, þegar Danir taka við formennsku ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert