Ekki sjálfgefið að taka upp evru

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að ekki væri sjálfgefið að þau Evrópusambandslönd, sem ekki notuðu evru nú, muni nokkurn tímann taka hana upp.

„Mér er ekki kunnugt um annað en að Svíar telji sig geta haft sína krónu eins lengi og þeim sýnist. Þeir komast upp með það og felldu það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Danir höfðu áform um að fara í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu en um það ræðir enginn maður lengur í Danmörku. Auðvitað boðar síðan afstaða Breta í þessum efnum ákveðin tímamót og það verður fróðlegt að fylgjast með hvaða áhrif hún hefur," sagði Steingrímur.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði áður spurt Steingrím hvort ekki væri eðlilegt að stöðva aðildarviðræðuferlið í ljósi þess að aðild að Evrópusambandinu þýddi jafnframt aðild að því samkomulagi, sem 26 ESB-ríki hafa gert um aðhald og eftirlit með ríkisfjármálum.

„Er ekki eðlilegt að stöðva núna viðræðuferlið, leggja mat á stöðuna og leyfa þjóðinni að ákveða hvort sækja eigi um aðild eða ekki?" spurði Illugi. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Steingrím einnig hvort hann teldi ekki eðlilegt að stöðva aðildarviðræðurnar í ljósi breyttra aðstæðna innan ESB.

Illugi sagði það síðan áhugavert, að Steingrímur hefði nú lýst þeim möguleika, að það sé umhugsunarefni hvort Íslendingar ættu að taka upp evru ef aðild að sambandinu verði samþykkt. „Til hvers var þá þessi vegferð farin?" spurði Illugi og vísaði til þess að það hefði verið ein helsta röksemd fyrir aðildarumsókninni, að Íslendingar gætu þá stefnt að því að taka upp evru. Hann sagði að ríkjum, sem sæktu um ESB-aðild og fengju hana samþykkta, bæri að taka upp evruna.

Steingrímur sagði,  að sér sýndist að Illugi væri að reyna að fá hann til að viðurkenna að björgun Sjálfstæðisflokksins á landsfundi hans í Evrópumálum hefði verið rétt: að slá málinu á frest í óákveðinn tíma til að fresta uppgjöri innan flokksins og kjósa síðan um það í framtíðinni.

„Ég sé ekki hverju við Íslendingar værum þá nær. Þá væri til lítils á sig lagður þessi leiðangur, sem vissulega hefur verið erfiður og okkur ekki öllum sérstakt fagnaðarefni, ef við værum bókstaflega engu nær þegar við allt í einu hættum eða slægjum málinu á frest. Ég vil fá út úr þessu, með einhverjum hætti, einhverja efnislega niðurstöðu, sem þjóðin og við getum notað til að móta stefnu okkar um það hvernig þessum tengslum verði háttað til einhverrar frambúðar," sagði Steingrímur.

Hann sagðist ekki telja það sjálfgefið, að breytingar hjá Evrópusambandinu hefðu áhrif á stöðu einstakra ríkja gagnvart evrunni.  „Eftir því sem mér skilst, þótt þau í orði kveðnu eigi að taka (evruna) upp, þá hafa menn um leið mikið svigrúm til að skilgreina og meta hvenær þeir óska eftir því að fara inn í þann feril," sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert