Fyrrum forsvarsmenn lífeyrissjóðs ákærðir

Kópavogur
Kópavogur Árni Sæberg

Flosi Eiríksson hefur sent fjölmiðlum yfirlýsingu í tilefni þess að ríkissaksóknari gaf í gær út ákæru á hendur fyrrverandi framkvæmdastjóra og stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Flosi er í hópi fimm fyrrum stjórnarmanna sem ákærðir eru.

Orðrétt er yfirlýsing Flosa svohljóðandi:

„Ríkissaksóknari gaf í gær út ákæru á hendur fyrrum framkvæmdastjóra og stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Ég er meðal þeirra fimm stjórnarmanna sem ákærðir eru.

Ákæran er í tveimur liðum, annars vegar að sjóðurinn hafi veitt Kópavogsbæ ólögmæt lán og hins vegar að hann hafi veitt Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar.

Ákæran kemur mér á óvart enda tel ég öll efnisatriði málsins upplýst.

Um lán lífeyrissjóðsins til Kópavogsbæjar frá hausti 2008 er að fullu upplýst.  Þau voru á svig við reglur, en ég tel að með þeim hafi hagsmuna sjóðsfélaga verið gætt eins og skylt var og engir fjármunir töpuðust. Á þessum tíma, vikurnar eftir bankahrunið, var ekki mörgum öruggum valkostum til að dreifa og lán til Kópavogsbæjar voru eins trygg og hugsast gat.

Um seinna atriðið tel ég einnig að fullu upplýst. Fullyrðingar í bréfi til Fjármálaeftirlitsins, sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri undirrituðu, voru ekki settar fram með vitund annarra stjórnarmanna, þvert á móti. Þetta kom skýrt fram við rannsókn málsins og er skjalfest.

Ég mun ekki tjá mig frekar um málið opinberlega.“

Keyptu skuldabréf af Kópavogsbæ

Fjármálaeftirlitið kærði stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar í júní 2009 til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra vegna gruns um blekkingar og hugsanleg hegningarlagabrot.

Fram kom þá að skuldabréf, sem sjóðurinn keypti af Kópavogsbæ, hafi farið yfir 10% af heildareign sjóðsins en það er hámark leyfilegra lánveitinga til eins aðila, skv. lögum. Þá veitti sjóðurinn Kópavogsbæ peningamarkaðslán.

Eftir aðfinnslur Fjármálaeftirlitsins var peningamarkaðslánum eða skammtímavíxlum breytt í skuldabréf en þrátt fyrir það héldu lánveitingar í formi peningamarkaðslána áfram til bæjarins. Í bréfi til Fjármálaeftirlitsins 15. janúar 2009 sögðu forsvarsmenn sjóðsins hins vegar, að fjárfestingar lífeyrissjóðsins væru í samræmi við lög.

Þau sem sæta ákæru eru, auk Flosa, Sigrún Bragadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri, Gunnar I. Birgisson, fyrrum stjórnarformaður, og  Jón Júlíusson, Ómar Stefánsson og Sigrún Guðmundsdóttir, sem sátu í stjórn sjóðsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert