Gamla fólkið þorir ekki göngin

Grjóthrun í Oddskarðssgöngum 14. desember 2011.
Grjóthrun í Oddskarðssgöngum 14. desember 2011. Ljósmynd/Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir

„Það er bara þannig að fólk þorir varla að keyra þarna í gegn og allra síst gamla fólkið," segir Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, kennari í Fjarðarbyggð. Þórfríður var á leið um Oddskarðsgöng á miðvikudag þegar hún ók fram á stærðarinnar grjóthnullung. Íbúar Fjarðarbyggðar telja göngin eins og rússneska rúllettu og komið hefur fyrir að bílar verði fyrir tjóni þegar ekið er á grjót sem hrunið hefur úr loftinu.

Í nýrri samgönguáætlun sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra lagði fyrir Alþingi í vikunni er boðuð frestun á Norðfjarðargöngum, milli Eskifjarðar og Neskaupsstaðar, þannig að ekki verði hafist handa við þau fyrr en árið 2015, og þau ekki opnuð fyrr en 2018. Íbúar á svæðinu þurfa því áfram að nota gömlu göngin um Oddsskarð, einbreið göng sem liggja í 630 metra hæð og margir segja úrelt.

Flýta sér í gegnum göngin af ótta við hrun

„Þau eru alltaf að verða verri og verri enda er þeim ekkert haldið við af því það er alltaf verið að bíða eftir nýjum göngum,“ segir Þórfríður. Íbúar hafa nú stofnað þrýstihóp á Facebook þar sem birtur hefur verið fjöldi mynda sem sýnir bágt ástand ganganna. Nýjustu myndina tók Þórfríður af grjóti í göngunum á miðvikudag. Síðar kom reyndar í ljós að gröfumaður frá Vegagerðinni var að störfum á sama tíma við að hreinsa laust grjót úr gangnaveggjunum, en ljóst er að grjótið hefði getað valdið miklu tjóni hefði það fallið af sjálfsdáðum, eins og gerist reglulega.

„Það er stöðugt grjóthrun þarna og okkur finnst að það hafi aukist," segir Þórfríður. Þótt göngin séu nauðsynleg samgönguleið veigri sér margir við að keyra þau. „Núna í morgun heyrði ég frá einni konu sem sagði mér að hún keyri alltaf mjög hægt inn Norðfjarðarmegin þangað til hún er komin fram hjá blindhæðinni sem er í göngunum, og ef hún sér þá að það er enginn bíll að koma á móti þá gefur hún aðeins í til að komast sem fyrst út úr þeim."

Þarf að verða banaslys?

Þannig reynir fólk að vera sem styst inni í göngunum, hreinlega af ótta við að þau hrynji, en á hinn bóginn bendir Þórfríður á að ef ekið sé geyst um göngin sé erfiðara að sjá grjótið sem þegar hafi hrunið á veginn og geti reynst hættulegt. Á Facebook síðu Norðfjarðarganga segir einn íbúi sem keyrir göngin daglega til að komast í vinnu að hann hafi oftar en einu sinni keyrt á stóra steina sem hrunið hafi úr gangnaveggjunum, og jafnvel beyglað bílinn.

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar ályktaði í gær um nýja samgönguáætlun og segir frestun Norðfjarðarganga í engu samræmi við fyrri loforð stjórnvalda um samgöngubætur í tengslum við sameiningu sveitarfélaganna. Það hljóti að teljast lágmarksmannréttindi fyrir íbúa á Austurlandi að þeim sé gert kleift að stunda vinnu og sækja nauðsynlega þjónustu  við nútímalegar samgöngur.

Þingmenn allra flokka fengu í morgun senda meðfylgjandi mynd til að vekja athygli á ástandi ganganna. íbúar Fjarðabyggðar virðast þó ekki vongóðir um að hlustað verði á þá, ef marka má umræðuna á síðu um ný Norðfjarðargöng, og spyr einn íbúi hvort virkilega þurfi að verða banaslys í göngunum til að eitthvað verði gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert