„Ótrúlegur yfirgangur“

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sakaði Sjálfstæðisflokkinn um „ótrúlegan yfirgang“ með því að leggja fram tillögu um að hætt yrði við málshöfðun gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, skömmu áður en fresta ætti fundum Alþingis vegna jólahátíðar.

Jóhanna sagði þetta í viðtali á Rás tvö í morgun. Jóhanna gagnrýndi sjálfstæðismenn fyrir að ætlast til að taka þetta mál á dagskrá á þessum tíma, en samkvæmt starfsáætlun Alþingis á að gera hlé á fundum þingsins í dag vegna jólaleyfis. Jóhanna sagði um 40 þingmál óafgreidd.

Jóhanna sagði að málshöfðun gegn Geir væri viðkvæmt og erfitt mál. „Nú er ætlast til þess að þetta mál verði bara afgreitt á einum eða tveimur dögum; fái enga faglega umfjöllun inn í nefnd, sé ekki hægt að kalla til fólk o.s.frv. Við erum undir stöðugri gagnrýni hjá þessum sömu aðilum fyrir að leggja mál fram of seint og ætlast til þess að þessi og hin erfiðu og þungu málin séu afgreidd. Nú eru þeir að setja okkur í þessa stöðu sem ég held að við höfum aldrei boðið þeim upp á, að afgreiða á einum degi svona stórt mál.“

Þegar Jóhanna var spurð hvort hún myndi styðja tillögu Bjarna Benediktssonar um að falla frá málshöfðun ef tillagan kæmi til atkvæða, sagðist hún ætla hugleiða það. „Ég er hugsi yfir því að verið sé að taka málið úr eðlilegum dómsfarvegi og spyr hvað menn séu að hugsa með því. Það mun svolítið móta mína afstöðu.“

Jóhanna greiddi atkvæði gegn málshöfðun gegn Geir þegar tillaga um það var borin upp á Alþingi í fyrravetur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert