Fréttaskýring: Tryggð fyrir á sjöttu milljón en 75 bættar

Bandarískt fyrirtæki skoðaði búslóðina en lagði ekki mat á fjártjónið.
Bandarískt fyrirtæki skoðaði búslóðina en lagði ekki mat á fjártjónið.

Búslóð Skafta Jónssonar, sendiráðunautar við sendiráð Íslands í Washington, og konu hans, Kristínar Þorsteinsdóttur, skemmdist mikið í apríl á þessu ári í flutningi frá Íslandi til Bandaríkjanna.

Búslóðin var tryggð fyrir á sjöttu milljón króna, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Á grundvelli mats var búslóðin hins vegar bætt af ríkinu fyrir 75 milljónir króna samkvæmt aukafjárlögum sem samþykkt voru fyrir skemmstu.

Fram hefur komið að hluti umræddrar tryggingar hafi verið keyptur af Skafta sjálfum til viðbótar við þá tryggingu sem ríkið keypti vegna flutninganna. Pétur Ásgeirsson, sviðstjóri rekstrar- og þjónustusviðs utanríkisráðuneytisins, segir hins vegar í samtali við Morgunblaðið að svo hafi ekki verið heldur hafi einungis verið um að ræða tryggingu sem tekin var af hálfu ríkisins. Þá hafi tryggingin ekki verið hugsuð sem altrygging heldur einungis vegna mögulegs tjóns af hnjaski og skrámum.

Mikið tjón í hafi

Á leið sinni til Richmond í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum í apríl varð gámaflutningaskip Eimskips, Reykjafoss, fyrir ólagi sem reið yfir skipið með þeim afleiðingum að sjór komst inn í 20 feta gám með búslóð Skafta og Kristínar sem var neðst í lest skipsins. Ástand búslóðarinnar kom hins vegar ekki í ljós fyrr en gámurinn var opnaður til tollskoðunar en þá hafði hann beðið þess í nokkra sólarhringa í miklum hita.

Reyndist búslóðin þá hafa orðið fyrir miklum skemmdum af völdum vatns og myglu en hluti hennar var nokkur fjöldi málverka og ýmsir aðrir listmunir auk meðal annars fatnaðar og húsgagna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var í kjölfarið farið í gegnum búslóðina með nákvæmum hætti, að Skafta og Kristínu viðstöddum, með það fyrir augum að leggja mat á ástand hennar og því hent sem talið var gjörónýtt.

Þá var bandarískt fyrirtæki, sem sérhæfir sig í að reyna að bjarga verðmætum sem orðið hafa fyrir skemmdum, fengið til þess að fara í gegnum málverkin og listmunina ásamt þeim hjónum og leggja mat á það hvort hugsanlega væri hægt að lagfæra þær skemmdir sem orðið höfðu á þeim. Niðurstaða þeirrar vinnu var, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, sú að nokkur fjöldi verka mun hafa verið lagfærður af umræddu fyrirtæki. Fyrirtækið lagði hins vegar ekki sérstakt mat á það fjárhagstjón sem orðið hefði á búslóðinni.

Ríkið ábyrgt fyrir búslóðum

Spurður um lagaskyldu ríkisins til þess að bæta tjón eins og það sem varð á búslóð Skafta Jónssonar og Kristínar Þorsteinsdóttur í flutningi til Bandaríkjanna í apríl síðastliðnum segir Pétur Ásgeirsson, sviðsstjóri rekstrar- og þjónustusviðs utanríkisráðuneytisins, að ábyrgð ríkisins byggist á því að starfsmenn utanríkisráðuneytisins séu lögum samkvæmt skyldugir til þess að flytja þangað sem starfskrafta þeirra sé óskað innan utanríkisþjónustunnar.

Pétur segir að ríkinu beri á móti að flytja búslóðir þeirra þangað sem þeir flytjast starfs síns vegna og á meðan þær séu í vörslu þess sé það ábyrgt fyrir þeim.

Spurður hvað hafi verið lagt til grundvallar því að meta búslóðina á 75 milljónir króna segir Pétur að fyrirtækið Könnun hf. hafi framkvæmt matið á grundvelli nákvæmrar skrár yfir það sem hafi verið í búslóðinni, ljósmyndum af henni fyrir og eftir tjónið og matsskýrslu frá bandarísku matsfyrirtæki. Um sama fyrirtækið er að ræða og rætt er um í meginmáli fréttarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert