„Blessun að hafa krónuna“

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Kristinn Ingvarsson

Það hefur reynst Íslandi blessun að búa við eigin gjaldmiðil sem gat tekið mið af hinum nýja efnahagslega veruleika eftir efnahagshrunið. Þetta er mat Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, sem ræddi íslensku viðreisnina í samtali við sænska sjónvarpið.

Forsetinn ræddi stöðu efnahagsmála í samtali við TV2 fyrr í mánuðinum og bar þá Icesave-deilan á góma sem endranær þegar erlendir fjölmiðlamenn ræða við Ólaf Ragnar.

„Ég stóð á krossgötum þar sem valkostirnir voru í grundvallaratriðum skýrir. Á aðra hönd var hinn lýðræðislegi vilji fólksins og á hina fjárhagslegar kröfur annarra ríkja og evrópsks fjármálalífs. Niðurstaða mín var að lýðræðið væri einn af hornsteinum þess sem gerir okkur að því sem við erum, ekki aðeins á Íslandi heldur um gervalla Evrópu,“ sagði forsetinn í lauslegri þýðingu.

„Eftir fall bankanna vorum við í þeirri blessunarlegu stöðu að hafa eigin sjálfstæða mynt,“ sagði Ólafur Ragnar og vísaði jafnframt til þess hvernig Íslendingar hefðu látið ógert að dæla miklu fé inn í bankakerfið.

Icesave-deilan hefur víða vakið athygli. Skýrt merki um það er að La Tribuna Hispana, vefur á spænsku ætlaður bandarískum lesendum, fjallar ítarlega um stöðuna á Íslandi.

Áhersla er lögð á forsetann og er hann sagður hafa tekið þá „hugrökku ákvörðun“ að gera almenningi kleift að greiða atkvæði í Icesave-deilunni og þannig orðið „hetja“ í augum margra Íslendinga.

Grein La Tribuna má nálgast hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert