„Hvers konar kjaftæði er þetta?"

Kristján L. Möller.
Kristján L. Möller. mbl.is/Ernir

„Hvers konar kjaftæði er þetta?" spurði Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og beindi orðum sínum til samflokksmanns síns, Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra. „Erum við ekki jafnaðarmenn?"

Þeir Árni Páll og Kristján voru ósammála um breytingartillögu frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þingmanni VG, við frumvarp um svæðisbundna flutningsjöfnun. Frumvarpið gerir ráð fyrir því, að veittir séu flutningsjöfnunarstyrkir til einstaklinga og fyrirtækja, sem búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði. 

Í frumvarpinu, eins og það kom frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, er gert ráð fyrir að staðir á Vestfjörðum njóti hærri styrkja en önnur svæði. Lilja Rafney lagði til að tiltekin svæði á Norðausturlandi og Austurlandi falli einnig í þennan flokk.

Árni Páll lagðist gegn þessari tillögu og sagði hana ekki byggja á efnislegum rökum. Kristján spurði hins vegar hver væri munurinn á að flutningsjafna 450 km vestur á firði eða 450 kílómetra austur á land. Það væri jafndýrt að flytja vörur austur á land og á Vestfirði.

Breytingartillaga Lilju Rafneyjar var síðan samþykkt með 30 atkvæðum gegn 5 og greiddi Árni Páll einn stjórnarliða atkvæði gegn tillögunni. Frumvarpið varð síðan að lögum á Alþingi á sjötta tímanum í dag með 45 samhljóða atkvæðum. Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði áherslu á að lögin yrðu endurskoðuð næsta haust og þá lagt mat á það hvort efnisleg rök væru fyrir því að Norðausturland væri í sama styrkjaflokki og Vestfirðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert