Ákjósanlegt að virkja Kolkistung

Straumur mældur í Kolkistustraumi til að staðsetja hugsanlega sjávarfallavirkjun.
Straumur mældur í Kolkistustraumi til að staðsetja hugsanlega sjávarfallavirkjun.

Sjávarfallavirkjun í Kolkistustraumi í Hvammsfirði gæti skilað 5,3 gígavattstunda orku á ári, ef straumþyngsta svæðið yrði virkjað og að meðaltali 600 kílóvattstundum. Unnt er að auka orkuna verulega með því að virkja allt svæðið og taka í notkun nýja tækni.

Gunnlaugur S. Guðmundsson og Níels B. Jónsson gerðu straumlíkan af Kolkistustraumi  í lokaverkefni í vél- og orkutæknisviði við Háskólann í Reykjavík og kynntu niðurstöður sínar í fyrradag. Er þetta í fyrsta skipti sem svo nákvæmar straummælingar eru gerðar til staðsetningar á sjávarfallavirkjun hér á landi.

Sjávarfallavirkjanir byggjast á að nýta straum sem myndast vegna vatnsflutninga á flóði og fjöru. Þannig er aðdráttarafl tungls og sólar notað til orkuframleiðslu.

Staðsetja 100 hverfla

Kolkistustraumur eða Kolkistungur liggur með landi á Skógarströnd, á milli jarðarinnar Straums og Straumseyjar. Níels og Gunnlaugur segja að aðstæður þarna séu einstakar enda þarf ekki að stífla eða þrengja að straumnum. Hann er nægur fyrir. Þá er gott að komast þarna að. „Ef sjávarfallavirkjun borgar sig ekki á þessu svæði, þá borgar hún sig líklega hvergi,“ segir Níels.

Þeir fundu út hvar hagkvæmast væri að staðsetja hverfla í Kolkistungi og hvað virkjunin  gæfi mikla orku á heilu ári. Það er forsenda frekari vinnu við undirbúning virkjunar. Þeir gerðu ekki arðsemisútreikninga.

Þeir félagarnir settu upp nokkrar möguleika, með mismunandi búnaði. Með því að setja 100 hverfla á miðhluta svæðisins fæst góð útkoma. Einnig skoðuðu þeir aðrar gerðir af hverflum og nýtingu alls svæðisins.

Sjávarfallavirkjanir hafa verið nokkuð athugaðar, ekki síst í fjörðum Breiðafjarðar þar sem mikill munur er á flóði og fjöru. Almennt hefur ekki verið talið að slíkar virkjanir væru hagkvæmar en tækni og þekking hefur verið að aukast.

Níels og Gunnlaugur segja að orka frá sjávarfallavirkjun sé vissulega háð miklum sveiflum. Sveiflurnar séu hins vegar þekktar fyrirfram, ólíkt orku frá vindmyllum, og því sé auðveldara að keyra slíka virkjun á móti öðrum virkjunum, til dæmis vatnsaflsvirkjunum. Annar kostur sé að nýta orkuna í einhverja starfsemi sem ekki þurfi stöðuga orku.

Níels B. Jónsson og Gunnlaugur S. Guðmundsson skoðuðu grundvöll sjávarfallavirkjunar.
Níels B. Jónsson og Gunnlaugur S. Guðmundsson skoðuðu grundvöll sjávarfallavirkjunar. mbl.is/Helgi Bjarnason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert