Virkjað verði í Neðri-Þjórsá

Frá neðri hluta Þjórsár þar sem lagt er til að …
Frá neðri hluta Þjórsár þar sem lagt er til að byggðar verði virkjanir. mbl.is/Rax

Landsvirkjun verður falið að ráðast hið fyrsta í framkvæmdir við virkjanir í neðri hluta Þjórsár, verði frumvarp Jóns Gunnarssonar og átta annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins að lögum.

Frumvarpið felur í sér að sett verði bráðabirgðaákvæði í raforkulög þar sem iðnaðarráðherra verði falið að veita virkjanaleyfi fyrir þremur vatnsaflsvirkjunum í neðri hluta Þjórsár en ekki Orkustofnun eins og nú er kveðið á um. Frumvarpið var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Það var lagt fram á ný fyrir þingfrestun um helgina.

Landsvirkjun hefur undirbúið þrjár virkjanir í neðrihluta Þjórsár, Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjanir. Þær eru settar í nýtingarflokk í tillögu að þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem nú er til umfjöllunar hjá tveimur ráðherrum eftir að frestur til athugasemda rann út. Andstaða er við þessar virkjanir innan VG og ályktaði flokkurinn gegn þeim á landsfundi fyrr í vetur.

„Verði frumvarpið að lögum skal hið fyrsta hefja framkvæmdir við þær þrjár virkjanir sem eru kenndar við Urriðafoss, Holt og Hvamm og nýta orkuna þaðan til uppbyggingar atvinnulífs á sunnanverðu landinu. Þessi áform um virkjanir hafa þegar uppfyllt öll skilyrði umhverfissjónarmiða og hagkvæmnissjónarmiða. Virkjanirnar hafa þegar farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum án athugasemda, verið í tvígang settar í rammaáætlun og komið vel út í bæði skiptin, eru fjárhagslegar hagkvæmar og styrkja íslenskt atvinnulíf,“ segir í greinargerð fyrir tillögu sjálfstæðismanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert