Huang hefur enn áhuga á Íslandi

Huang Nubo
Huang Nubo mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Kínverski fjárfestirinn Huang Nubo, stjórnarformaður Zhongkun Investment Group, hefur enn áhuga á Íslandi þrátt fyrir að innanríkisráðherra hafi hafnað tilboði hans í Grímsstaði á Fjöllum. Þetta kemur fram í viðtali við Huang á vef China Daily.

„Við eigum enn í samskiptum við viðeigandi ráðuneyti á Íslandi," segir Huang í viðtalinu.

Huang segir að fyrirtæki hans sé enn að skoða verkefni í Norður-Evrópu og Bandaríkjunum.

Stefnt sé að því að auka virði eigna Zhongkun í Bandaríkjunum úr 200 milljónum Bandaríkjadala í einn milljarð dala í náinni framtíð. „Nú er góður tími til þess að skoða yfirtökumöguleika á bandarískum eignamarkaði." 

Horfir Huang einkum til þess að kaupa fasteignir sem ekki hefur tekist að ljúka byggingu á. Meðal annars er Zhongkun í viðræðum um kaup á ferðamannastað í Las Vegas. Nýverið keypti félagið skrifstofubyggingu í Los Angeles en auk þess er verið að byggja stóra verslunarmiðstöð í sömu borg.

Fjárfest fyrir 2 milljarða dala í N-Evrópu

Huang segir að hann sé í samskiptum við stjórnvöld í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi um mögulega samvinnu. Hann hafi borðað fyrir nokkrum dögum með sendiherra Danmerkur í Kína og þeir rætt um möguleika á samstarfi í Grænlandi. 

„Áætlanir mínar gera ráð fyrir fjárfestingum í ferðamálaverkefnum í Norður-Evrópu, þar á meðal Íslandi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi, fyrir tvo milljarða Bandaríkjadala í framtíðinni," segir Huang í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert