Engin deila milli HS Orku og OR

Orkuveitan er farin að framleiða rafmagn til álvers í Helguvík …
Orkuveitan er farin að framleiða rafmagn til álvers í Helguvík þó álverið sé ekki fullbyggt. mbl.is/Golli

Ástæða þess að HS Orka stefnir Orkuveitu Reykjavíkur vegna deilu um orkumagn sem Norðuráli ber að kaupa frá HS er að samningurinn sem um er deilt er þríhliða og því varð HS Orka að stefna báðum samningsaðilum. OR segist ekki eiga í neinni deilu við HS Orku.

Ný rafstöð Orkuveitu Reykjavíkur á Hellisheiði, Sleggjan, var ræst í byrjun október, en Norðurál hafði skuldbundið sig til að kaupa orkuna. Hana átti að nota til að knýja álver fyrirtækisins í Helguvík, en það er hins vegar ekki tilbúið. Norðurál brást við þessari stöðu með því að notfæra sér ákvæði samninga við Landsvirkjun, OR og HS Orku og dró þannig úr orkukaupum. Orkufyrirtækin voru ekki sátt við þessa aðgerð og nú hefur HS Orka ákveðið að stefna Norðuráli fyrir gerðardóm í Svíþjóð.

Deilan snýst því um það orkumagn sem Norðuráli ber að kaupa frá HS samkvæmt orkusölusamningnum til notkunar í álverinu á Grundartanga, með hliðsjón af orkukaupum Norðuráls frá öðrum aðilum.

„Þó ekki sé um neina deilu að ræða milli HS og OR þá varð HS að krefjast aðildar OR að deilunni þar sem um sameiginlegan orkusölusamning er að ræða. Gerðardómsmálið verður rekið í samræmi við reglur Gerðardómsstofnunar Viðskiptaráðsins í Stokkhólmi. Gerðardómur hefur ekki verið skipaður og áætlun um framgang málsins ekki verið ákveðin,“ segir í tilkynningu frá Orkuveitunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert