Icelandair kaupir losunarheimildir

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stjórnendur Icelandair eru byrjaðir að kaupa losunarheimildir, en frá og með 1. janúar 2012 mun flugstarfsemi innan EES-svæðisins falla undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.

Umhverfisráðherra setti 9. desember sl. reglugerð um úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda, og er hún í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 21. október 2011. Með reglugerðinni hefur verið ákveðið eitt árangursviðmið fyrir viðskiptatímabilið 2012 og annað fyrir viðskiptatímabilið 2013-2020. Á tímabilinu 2012 fá flugrekendur úthlutað 0,6797 losunarheimildum fyrir hverja 1.000 tonnkílómetra, en fyrir tímabilið 2013-2020 fá flugrekendur úthlutað á hverju ári 0,6422 losunarheimildum fyrir hverja 1.000 tonnkílómetra.

Níu flugrekendur, þar af tveir íslenskir þ.e. Icelandair og Flugfélag Íslands, sóttu um endurgjaldslausar losunarheimildir til Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun hefur reiknað úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda til flugrekenda í viðskiptakerfi ESB fyrir viðskiptatímabilið árið 2012 og fyrir hvert ár á viðskiptatímabilinu 2013-2020. Úthlutunin byggist á árangursviðmiðum og vottuðum upplýsingum frá flugrekendum um fjölda tonnkílómetra í starfsemi þeirra árið 2010.

Icelandair er flugfélag sem er að vaxa og þarf félagið því að kaupa sér viðbótar losunarheimildir. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, vill ekki gefa upp nákvæmar upplýsingar um hvað þessi kostnaður er áætlaður hár á næsta ári, en hann segir þetta háar upphæðir. Kostnaðurinn hlaupi á hundruðum milljóna.

Nú er hægt að kaupa losunarheimildir á markaði líkt og eldsneyti. Verðið hækkar og lækkar eins og hver önnur vara. Guðjón segir að fyrirtækið sé þegar farið að nýta sér þennan markað.

Eins og jafnan þegar nýr liður af þessu tagi bætist við rekstrarútgjöld fyrirtækja eru fyrirtæki farin að bjóða flugrekendum tryggingar af ýmsu tagi. Hægt er að gera samninga um kaup á losunarheimildum til langs tíma og skemmri tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert