Ráðlegt að ferðast á Þorláksmessu

Búast má við erfiðri færð víðast hvar á landinu á …
Búast má við erfiðri færð víðast hvar á landinu á aðfangadag. Mbl.is/Árni Sæberg

„Við mælum með því að fólk reyni helst að ferðast á Þorláksmessu heldur en á aðfangadag, því það er mjög ótryggt með veðurútlit,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Tvær lægðir eru á leiðinni til landsins, sú fyrri í kvöld en hin síðari á aðfangadagsmorgun. Útlit er fyrir mikið hvassviðri á landinu öllu og rokinu fylgir mikil úrkoma sem gæti orðið ýmist á formi rigningar eða slyddu á Suðvesturlandi en norðan- og austanlands er útlit fyrir snjókomu. „Þetta er einn af óvissuþáttunum af því að hitinn dansar í kringum frostmarkið, en fólk ætti að hafa í huga að færð spillist mjög fljótt þegar úrkoma og vindur fara saman og að slydda er jafnvel verri en snjókoma því það verður svo mikil hálka," segir Elín.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni fer eftir aðstæðum hversu lengi verður þjónustað með mokstri á aðfangadag. Sé um ófærð að ræða er hinsvegar miðað við að á lengri leiðum verði mokað allt fram til klukkan 17.

Veðurstofan mælist til þess að fólk fylgist vel með veðrinu og hafi vaðið fyrir neðan sig. „Ef fólk ætlar á milli landshluta er öruggast að gera það á [Þorláksmessu] því það er ekki víst að það komist á aðfangadag."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert