Féll 5 metra en fær ekki bætur

Húsið sem Blómaval var í við Sigtún.
Húsið sem Blómaval var í við Sigtún.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað tvö fyrirtæki og tryggingafélag af bótakröfu forráðamanna drengs, sem féll fimm metra niður á gólf og slasaðist í auðu húsi við Sigtún sem átti að rífa.

Slysið varð í september 2007 þegar drengurinn var tæplega 8 ára. Hann fór ásamt tveimur vinum sínum gegnum brotinn glugga inn í autt hús þar sem verslunin Blómaval var áður til húsa. 

Drengurinn sagðist hafa vitað til þess, að fólk færi inn í húsið og hellingur af fólki hefði verið þar að „spreyja“ og fólk farið inn í húsið með hunda og sleppt þeim lausum.

Hann sagði að þeir félagarnir hefðu farið inn í húsnæðið í gegnum brotinn glugga. Þar hafi þeir klifrað upp á þakið með því að fara upp á sófa sem þar var, þaðan upp á eldavél sem var við hlið sófans þar sem þeir náðu taki á spýtu og þaðan hafi þeir farið upp á aðra spýtu og þannig hafi þeir komist upp á þakið. Aðspurður sagði hann að ekki hefði verið erfitt fyrir þá að komast upp á þakið og kvaðst vita til þess að fleiri hefðu farið þangað.

Klifurmyndbönd á YouTube

Drengirnir gengu eftir mæni hússins og voru þar í leik sem þeir kölluðu „að flýja frá sólinni“. Drengurinn sagði þá hafa verið búna að sjá mikið af klifurmyndböndum á „YouTube“ og það hefði m.a. verið ástæða þess að þeir fóru upp á þakið. Félagar hans hefðu gengið á listum milli glerjanna en hann hefði gengið á glerinu. Félagi hans hefði sagt honum að ganga á glerinu en einnig sagt að hann gæti dottið en drengurinn svaraði þá: „Nei ég dett ekkert“. En þá hrasaði hann og steig á glerþak hússins með þeim afleiðingum að glerið brotnaði og  hann  féll í gegnum þakið og niður fimm metra og lenti á gólfinu.

Drengurinn var fluttur á slysadeild Landspítalans og þar var hann greindur með mjaðmagrindarbrot, úlnliðsbrot, brotna tönn og fleiri áverka. Fram kemur í dómnum að drengurinn sé talinn búa við 15% varanlega örorku eftir slysið. Einnig telji foreldrar hans hann búa við kvíðaröskun í kjölfar slyssins ásamt áráttu- og þráhyggjueinkennum.

Húsið var í eigu félagsins Norður íbúða ehf. og hafði staðið autt um hríð en til stóð að rífa það. Eykt ehf. átti að sjá um framkvæmdir við niðurrif húsnæðisins. Forráðamenn drengsins töldu frágang Eyktar  á húsnæði og lóð hússins hafa verið óviðunandi og hættulegan, sérstaklega í ljósi þess að húsið var í íbúðahverfi þar sem búast mátti við börnum og unglingum.

Æska landsins gekk hart fram

Héraðsdómur segir óumdeilt  að  Eykt hafi ekki verið eigandi eignarinnar þegar slysið varð og ekki hafi verið sýnt fram á að svæðið hafi verið á ábyrgð félagsins. Starfsmaður Eyktar bar fyrir dómi, að húsnæðið hefði ekki verið neinn hjallur tveimur mánuðum fyrir slysið þegar húsið var afhent en það hefði breyst í hjall á skömmum tíma. Sagðist hann telja „að æska landsins hafi lagt sig fram um að ganga hart fram þarna“.

Félagið Norður íbúðir var skráð fyrir fasteigninni.

Héraðsdómur segir, að telja verði að félagið hafi ekki viðhaft nægilegt eftirlit með húsnæðinu í því skyni að tryggja að óviðkomandi hefðu ekki aðgang að því. Hins vegar hafi ekki verið sýnt fram á nægileg orsakatengsl milli vanrækslu félagsins og tjóns drengsins.

Segir dómurinn að Norður íbúðir hafi átt að sjá fyrir að börn færu inn í húsnæðið en fjarlægara sé að þau færu upp á þakið innandyra með þeim hætti sem drengurinn lýsti. Þótt drengurinn hafi borið um að ekki hafi verið erfitt að komast upp á þakið þá verði ekki, með hliðsjón af lýsingu hans, hægt að telja að aðgengi þangað hafi almennt verið auðvelt fyrir börn. Því sé tjón drengsins svo fjarlæg afleiðing af vanrækslunni að ekki verði lögð á félagið bótaskylda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert