Svarað í hjálparsímann um jólin

Konukot.
Konukot. mbl.is/Ásdís

Svarað verður í hjálparsíma Rauða krossins yfir hátíðarnar og eins eru athvörf Rauða krossins opin yfir hátíðarnar.

Í hjálparsíma Rauða krossins, 1717, er fólki veittur stuðningur til að mynda vegna þunglyndis, kvíða, fjármálaáhyggna, vanlíðunar eða einsemdar. Þar eru einnig veittar upplýsingar um samfélagsleg úrræði, matarúthlutanir, ókeypis hátíðarmálsverði og opnunartíma ýmissa athvarfa. Á liðnum árum hafa borist um 200 hringingar frá Þorláksmessu fram á annan í jólum og svipaður fjöldi á gamlárs- og nýársdag, segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.

Konukot, athvarf fyrir heimilislausar konur, Eskihlíð 4, verður opið allan sólarhringinn yfir hátíðirnar. Þar verður hátíðarkvöldverður á aðfangadagskvöld og konurnar fá gjafir frá velunnurum. Á virkum dögum á milli jóla og nýárs er Konukot opið frá kl. 17 til hádegis daginn eftir.

Vin, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, Hverfisgötu 47, býður upp á jólakaffi  frá 14-17 á annan í jólum. Í Vin verður annars lokað yfir jólahátíðina, þann 27. desember og á gamlársdag, en annars er opið samkvæmt venju á milli jóla og nýárs.

Dvöl, athvarf fyrir geðfatlaða, Reynihvammi 43 í Kópavogi, verður opið frá 9:30-15:30 virka daga á milli jóla og nýárs.

Rauðakrosshúsið í Kópavogi, Hamraborg 11, verður opið alla virka daga frá 11-15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert