Fréttaskýring: Kortin draga úr niðurlægingunni

mbl.is/Ómar

Í kjölfar efnahagshrunsins hefur mikið verið fjallað um þann fjölda fólks sem hefur þurft að sækja sér mataraðstoð til hjálparsamtaka. Þar hefur sá háttur verið hafður á að fólk fær afhenta poka með mat og hefur jafnvel þurft að standa í röð utandyra eftir því að fá matinn.

Í vor gerði Hjálparstarf kirkjunnar tilraun með að láta barnafjölskyldur fá svonefnd inneignarkort í stað matarpoka. Stóð tilraunin í sjö mánuði og í kjölfarið var ákveðið að skipta alfarið yfir í inneignarkortin í byrjun nóvember.

Í meistararitgerð Katrínar Guðnýjar Alfreðsdóttur í félagsráðgjöf, „Úr biðröð í búð: Breyttar áherslur í matargjöfum hjá Hjálparstarfi kirkjunnar“, sem byggist á viðtölum við 14 einstaklinga sem fengu slík kort í ár, kemur meðal annars fram að þeim fannst þeim líða betur með sjálfa sig, vera sjálfstæðari og aðstoðin væri mannlegri en þegar hún var veitt í pokum. Bar viðmælendunum saman um að það væri niðurlægjandi að þurfa að sækja mataraðstoð og þurfa að standa í biðröðum eftir matnum.

Maturinn nýtist ekki allur

Enginn viðmælandi í rannsókn Katrínar hafði tekjur af launaðri vinnu og allir nema einn höfðu tekjur sínar af opinberum bótum. Leituðu þau til Hjálparstarfs kirkjunnar þar sem bæturnar duguðu ekki til að borga alla reikninga og kaupa mat.

Fyrir utan smánina að þurfa að bíða í röð eftir mat koma ýmsir aðrir ókostir við hinar hefðbundnu matargjafir í pokum fram í máli þessara skjólstæðinga Hjálparstarfsins.

Sumum fannst það erfitt að láta aðra velja fyrir sig mat og hann nýttist þeim jafnvel ekki allur af þeim sökum. Bar fólkið því við að börn þeirra vildu matinn ekki, einhver í fjölskyldunni hefði ofnæmi fyrir honum eða að það kynni hreinlega ekki að matreiða hann. Því endaði hluti matarins stundum í ruslinu eða þá að hann var gefinn fólki í svipaðri neyð.

Þá reyndist mörgum erfitt að bera pokana frá Hjálparstarfi kirkjunnar og komast með þá heim til sín enda eiga margir þeirra sem þurfa að leita á náðir hjálparstofnana ekki bíl.

Kortið bætir þjónustuna

Helsti kosturinn við inneignarkortin að mati viðmælendanna er að þau losa fólk undan þeirri niðurlægingu að sækja sér matarpoka í hjálparstofnun. Þá nefna þeir að með kortunum geti þeir skipulagt innkaup sín betur og farið út í búð þegar þeim hentaði og þörf væri á.

Afstaða fólksins til þess að þurfa að koma með gögn um tekjur sínar og gjöld til að sýna fram á þörf sína fyrir aðstoð var jákvæð. Almenna viðkvæðið var að það væri skiljanleg ráðstöfun og að það sjálft hefði ekkert að fela. Það væri jafnvel gott að geta réttlætt að það þyrfti í raun og veru á aðstoðinni að halda.

„Þetta er valdefling að fólk fari sjálf út í búð og verði þátttakendur í eigin lífi í staðinn fyrir að aðrir velji í pokann fyrir það. Það veitir því sjálfstraust og eflir að hafa eitthvað um það að segja hvað það gerir,“ segir Katrín.

Með inneignarkortunum hafi fólkið val um hvað það kaupi og hvað það geri við peninginn. Það geti keypt mat og fatnað en ekki áfengi.

„Aðalatriðið er að það sé borin virðing fyrir þessu fólki. Þetta eru þung og erfið spor og það býr við mjög fjölþættan vanda,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert