Vinnubrögðum hrakar á þingi

Sigurður Kári Kristjánsson
Sigurður Kári Kristjánsson mbl.is/Ómar Óskarsson

Vinnubrögðum hefur hrakað á Alþingi að mati Sigurðar Kára Kristjánssonar, sem hefur kvatt stjórnmálin og er orðinn meðeigandi að Lögmönnum Lækjargötu. Hann telur að endurnýjunin hafi orðið of hröð og það komi niður á störfum þingsins. Þetta kemur fram í samtali við hann í Sunnudagsmogganum.

„Mér finnst að vinnubrögðum hafi hrakað á Alþingi, fagmennskan hefur minnkað og mér hefur fundist að þeir sem þarna eiga sæti beri ekki nægilega virðingu fyrir því verkefni sem þeim hefur verið falið og kasti oft til höndunum varðandi mikilvægar lagabreytingar, sem þyrftu miklu meiri yfirlegu í þingstörfum.“

Vantraustið meira en áður

Þá segir hann andrúmsloftið miklu verra, togstreitan og vantraustið sé meira en áður. Það ásamt árangursleysi ríkisstjórnarinnar valdi því að almenningur beri minna traust til Alþingis. „Mér finnst að stjórnmálamenn þurfi til framtíðar að líta til þeirra verkefna sem þeim hefur verið falið að leysa, fremur en að horfa á alla hluti út frá sinni eigin persónu og flokksskírteinum. Þannig er pólitíkin að mörgu leyti orðin, persónuleg og rætin. Þar bera þeir þyngstu sökina sem hæst hafa talað um breytt vinnubrögð.“

Svo segir hann að skapa þurfi þau starfsskilyrði að það sé eftirsóknarvert að starfa á Alþingi. „Til þess að fá frambærilegt fólk til að sinna þessum störfum þarf það að vera að minnsta kosti sæmilega vel launað. Það þorir varla nokkur þingmaður að segja þetta, og ég er illa svikinn ef ég verð ekki gagnrýndur fyrir það, en þingmennska getur verið fulldýrt áhugamál. Ég held að fólk átti sig ekki á því, að þingmenn eru í rauninni alltaf í vinnunni og launakjör eru ekki sambærileg því sem býðst á almennum vinnumarkaði, að minnsta kosti ekki fyrir fólk sem hefur annaðhvort aflað sér mikillar menntunar eða reynslu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert