90.000 á flótta frá trúarátökum í Nígeríu

Hermenn skoða vettvang sprengingarinnar við kaþólsku St. Theresukirkjuna í útjaðri …
Hermenn skoða vettvang sprengingarinnar við kaþólsku St. Theresukirkjuna í útjaðri höfuðborgarinnar Abuja, á jóladag. Reuters

Blóðug átök íslamista og öryggissveita í borginni Damaturu í Nígeríu, sem hófust í síðustu viku, hafa hrakið um 90.000 manns frá heimilum sínum í vikunni.

„Einmitt núna er áætlað að 90.000 manns séu á vergangi vegna ofbeldisins í Damaturu," segir Ibrahim Farinloye, stjórnandi hjá hjálparsamtökum þar í landi. 

Þar af eru um 40 þúsund frá svæðinu Pompomari, sem nánast hefur tæmst af fólki. Sumir hafa misst heimili sín eða þau verið eyðilögð, en flestir flúðu bara til að gæta öryggis síns.

„Við lögðumst gegn því við þá sem eru á flótta að þeir kæmu sér upp einhvers konar tímabundnum flóttamannabúðum, af öryggisástæðum. Þess vegna hafa flestir fundið sér skjól á heimilum vina og ættingja í borginni eða í þorpum fyrir utan hana."

Óttast er að um 100 manns hafi látist í átökunum, sem hófust með árás strangtrúaðra félaga í samtökunum Boko Haram. Herinn brást hart við og svaraði árásinni fljótt. Trukkar og brynvagnar með hermenn komu til Pompomari og íbúum var gefinn hálftíma frestur til að forða sér. Svo var svæðið umkringt.

Tvær sprengjur sprungu svo um jólahátíðina í borginni, þar á meðal í sjálfsmorðsárás á bílalest hersins, fyrir framan leynilega lögreglustöð.

Sprengingarnar í Damaturu um jólin voru hluti af ofbeldisöldu, sem Boko Haram eru talin bera ábyrgð á. Um 40 manns fórust í árásum í landinu þá daga. Mest mannfallið varð í sprengingu fyrir utan kirkju í höfuðborginni Abuja, þegar guðsþjónustu var að ljúka.

Átökin eru trúarleg að miklu leyti en stjórnmálamenn í Nígeríu hafa reynt að lægja öldurnar og hafa hvatt kristna borgara til þess að svara ekki fyrir sig með ofbeldi. Nígería er fjölmennasta ríki Afríku og stærsti olíuframleiðandi álfunnar. Það skiptist nokkurn veginn á milli kristinna, sem búa í suðurhlutanum, og múslíma sem búa í norðurhlutanum.

Snemma í nóvember voru gerðar árásir í Damaturu sem urðu 150 manns að bana. Ofbeldi hefur líka verið talsvert í borginni Potiskum, sem er nálægt Damaturu. Stjórnvöldum hefur gengið illa að hemja ofbeldið og árásirnar, þrátt fyrir mikinn herkostnað og miklar yfirlýsingar um handtökur á meðlimum í Boko Haram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert