„Það er illa rutt“

Snjó hefur kyngt niður á höfuðborgarsvæðinu undanfarið. Myndin er úr …
Snjó hefur kyngt niður á höfuðborgarsvæðinu undanfarið. Myndin er úr myndasafni. Steinunn Ásmundsdóttir

„Það er illa rutt, allt í bunkum og klaka. Einfaldlega slæmt ástand,“ sagði leigubílstjóri hjá BSR sem var spurður hvernig væri að komast um í höfuðborginni. Óvenjumikið hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu undanfarið.

Menn hafa verið að festa bíla í hliðargötum og víðar þar sem er illa rutt. Nokkuð er um að fjórhjóladrifsbílar séu notaðir sem leigubílar og kemur það sér vel í ófærðinni.

Bílstjórar hjá BSR sögðu margt fólk vera í vinnu og vera á ferðinni í öðrum erindum um hátíðarnar. Því væri undarlegt að ekki skyldi vera veitt betri þjónusta við að ryðja götur í borginni. 

Þeir sögðu að ekki hefði verið meira að gera en endranær vegna ófærðarinnar undanfarið.

Þá hafa margir leigubílstjórar kvartað yfir því hvað mikið hefur verið dregið úr götulýsingu. Það sé undarlegt, í landi sem býr yfir nægri raforku, að spara lýsinguna í svartasta skammdeginu og slæmu skyggni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert