Fréttaskýring: Ráðherraspilin stokkuð

Gert er ráð fyrir að Árni Páll Árnason, t.h, víki …
Gert er ráð fyrir að Árni Páll Árnason, t.h, víki úr ríkisstjórninni.

Ráðherrum ríkisstjórnarinnar fækkar úr tíu í átta gangi eftir það sem víst þótti í gær, að Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, yfirgefi ríkisstjórnina og aðrir komi ekki í þeirra stað.

Nokkurrar óánægju gætti með þessar breytingar innan Samfylkingarinnar, s.s. að veikja ráðuneyti efnahagsmála og einnig með að setja Árna Pál út úr ríkisstjórn. „Þessu verður ekki tekið þegjandi og hljóðalaust,“ sagði einn heimildarmaður Morgunblaðsins.

Mikið var fundað í gær og fram á kvöld en fáir voru tilbúnir að tjá sig undir nafni. „Ég tjái mig ekkert um þetta á þessu stigi mála,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Samkvæmt áreiðanlegum heimildum innan ríkisstjórnarflokkanna þykir líklegt að á þingflokksfundum stjórnarflokkanna síðdegis í dag verði lagðar fram tillögur um að þessir tveir ráðherrar víki úr embættum.

Stokka upp fyrir Samfylkingu?

Sömu heimildir herma að væntanlega verði einnig stefnt að stofnun nýs atvinnuvegaráðuneytis en ekki sé eining um það innan þingflokks Samfylkingarinnar hvort Árni Páll eða Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra taki við því embætti. Morgunblaðið hefur einnig heimildir úr herbúðum stjórnarflokkanna um að töluverðar líkur séu á auknum úrsögnum úr Vinstri grænum verði Jón Bjarnason látinn víkja úr embætti, enda beri margir flokksmenn mikið traust til hans vegna afstöðu hans til aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, segir blasa við að verið sé að stokka upp í röðum Vinstri grænna að kröfu Samfylkingarinnar. Með ólíkindum sé hvernig formaður og forysta VG láti undan kröfum samstarfsflokksins. „Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með því hvernig Samfylkingin hefur hamast á Jóni Bjarnasyni vegna skoðana hans í Evrópusambandsmálum án þess að formaður flokksins svo lítið sem lyfti litla fingri honum til varnar,“ segir Ásmundur Einar, sem áður sat á þingi fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. „Margir hljóta einnig að spyrja sig hvort þjóðin myndi ekki fremur vilja losna við Jóhönnu og Steingrím en þá ráðherra sem rætt er um að setja út nú.“

Fyrstu tvo dagana eftir að jólahátíðinni lauk áttu oddvitar ríkisstjórnarflokkanna í viðræðum við þingmenn Hreyfingarinnar þar sem farið var yfir mögulega aðild flokksins að ríkisstjórninni. Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, segir viðræðurnar vera á frumstigi og þær geti vart talist formlegar. „Það var farið yfir sjónarmið og hversu langt menn væru tilbúnir að ganga. Ég held að það gefi augaleið að þau væru ekki að tala við okkur nema af því að þau eru að reyna að halda meirihluta. Það er uppi mikil óvissa í stjórnarliðinu vegna fyrirhugaðra breytinga á ráðherraliðinu.“

Gera ekki kröfu til embætta

Þór segir skuldamál heimilanna þránd í götu mögulegs samstarfs.

„Það strandaði á því máli eins og svo mörgum öðrum. Okkur fannst VG og Samfylkingin ekki vera tilbúin að ganga nógu langt í þessum málum,“ segir Þór.

Margrét Tryggvadóttir, flokkssystir Þórs, segir að Hreyfingin eigi að hluta til mikla samleið með stjórnarflokkunum, til dæmis í stjórnarskrármálinu. Hún vísar því á bug að Hreyfingin geri það að kröfu að Jón Bjarnason víki úr stjórninni. „Við höfum ekki gert neina kröfu um að fá sjálf embætti né að ráðherrar víki. Við höfum hins vegar komið því á framfæri að við erum ekki ánægð með stjórn þingsins en höfum ekki minnst á Jón í viðræðunum.“

Flokksstjórn og flokksráð

Flokksstjórn Samfylkingarinnar hefur verið boðuð á fund í kvöld og er aðeins eitt mál á dagskrá; áform um breytingar á ríkisstjórn. Flokksráðsfundur VG hefur einnig verið boðaður klukkan 19 í kvöld og er sama mál þar á dagskrá, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.

„Nú eins og í september 2010 þegar breytingar voru gerðar á ríkisstjórn er boðað til flokksstjórnarfundar,“ segir í auglýsingu á vefsíðu Samfylkingarinnar. Félagar í Samfylkingunni hafa seturétt á flokksstjórnarfundum.

Í flokksráð VG eru kjörnir fjörutíu fulltrúar á landsfundi, en auk þeirra eiga sæti í ráðinu allir kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar, alþingismenn, formaður Ungra vinstri-grænna, formenn svæðisfélaga og formenn kjördæmisráða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert