Tengist ekki Evrópumálunum

Árni Þór Sigurðsson og Steingrímur J. Sigfússon á fundi VG.
Árni Þór Sigurðsson og Steingrímur J. Sigfússon á fundi VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Nei, ég treysti því að þetta hafi engin áhrif á hann enda er þetta eingöngu breyting á verkaskiptingu á mannskap en ekki stefnu. Við störfum áfram á grundvelli sömu stefnuyfirlýsingar og það eru engin málefnaleg tímamót í þessu fólgin þannig að það gefi tilefni til einhvers slíks enda hef ég ekki heyrt neitt slíkt.“

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, að afloknum þingflokksfundi flokksins í kvöld þar sem breytingar á ríkisstjórninni voru ræddar, aðspurður hvort þær kynnu að veikja þingmeirihluta stjórnarinnar.

Steingrímur hafnar því alfarið að breytingarnar á ríkisstjórninni tengist Evrópumálunum eins og Jón Bjarnason, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur fullyrt. „Það er algerlega óskylt mál og er ekkert á dagskrá í þessu sambandi. Það mál er alveg í óbreyttum farvegi og hefur enga skírskotun í þessu sambandi,“ sagði hann.

Hann hafnar því einnig að viðræður við Hreyfinguna um að hún veitti ríkisstjórninni stuðning á Alþingi fælu það í sér að stjórnarflokkarnir treystu ekki á þingmeirihluta sinn.

„Nei nei, það var einfaldlega þannig að þingmenn höfðu verið að stinga hér saman nefjum í lok þinghaldsins í desember og þeim skilaboðum var komið til okkar að það væri áhugi á því að við ræddum saman um tiltekin forgangsverkefni sem menn gætu hugsanlega átt samleið um að hrinda í framkvæmd og við urðum auðvitað góðfúslega við því að eiga óformlegar viðræður við þau. Þær voru gagnlegar og mjög vinsamlegar og við skildum í góðu þó það leiddi ekki til neinnar sérstakrar niðurstöðu,“ segir Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert