Kvöddum viðburðaríkt ár

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. Reuters

„Árið sem við kvöddum í gær var viðburðaríkt. Endurreisn efnahagslífsins miðaði áfram og fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins luku verk sínu. Við þurfum nú að treysta á eigin rammleik og dómgreind.“

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í áramótaávarpi sínu sem hófst klukkan eitt og sent var út á RÚV.

Hann sagði þjóðaratkvæðagreiðslurnar á nýliðnu ári hafa fært landsmönnum sjálfstraust, þær hefðu vakið aðdáun í öðrum löndum og eflt lýðræði.

Forseti vék orðum að þeirri lýðræðisþróun sem hefur átt sér stað víða um heim og vék þar að Arabíska vorinu svokallaða. „Vilji fólksins er hreyfiafl,“ sagði forsetinn í þessu sambandi.

Ísland er komið í var

Hann minntist ennfremur á þann vanda sem evruríkin eiga við að etja og sagði hann vísbendingu um ný valdahlutvöll í efnahagskerfi jarðar. „Lausnin er vart í augnsýn. Á slíkum óvissutímum er gott með vissum hætti að Ísland er komið í var.“

Ólafur Ragnar sagði að Íslendingar væru sem þjóð betur staddir en flestir aðrir. „Þó að margir hér búi við erfiðleika og tekjumissi og þurfi að treysta á matargjafir.“

Hann ræddi um vaxandi umsvif í atvinnulífi, ekki síst á landsbyggðinni. „Þjóðin getur átt í vændum betri kjör, haldið áfram að þróa hér samfélag í þágu allra, en þá þurfum við að halda vel á málum og muna mistökin,“ sagði Ólafur Ragnar.

„Við þurfum öll, einstaklingar, fyrirtæki og hið opinbera að temja okkur aukið aðhald, hætta að treysta á lántökur og gjalddaga í framtíðinni.“

Ólafur Ragnar sagði að mörgum hefði sennilega þótt nóg til um umsvif forsetaembættisins á undanförnum árum. Hann benti á að starfsmönnum skrifstofu embættisins hefði ekki fjölgað undanfarin 20 ár. „Ef forsetaembættið  getur sinnt auknum verkefnum með sama starfsmannafjölda, því geta aðrar opinberar stofnanir ekki gert það líka?“

Hið nýja norður

„Þróunin á norðurslóðum hefur fært landi okkar nýjan sess,“ sagði Ólafur Ragnar og talaði í því sambandi um Hið nýja norður sem kallaði á náið samstarf við nágranna í austri og vestri.

„Vinátta okkar við Indland og Kína skapar ný tækifæri,“ sagði forseti og sagði að þessi stóru ríki myndu hafa mikið að segja um þróun heimsmála.

Hann sagði að þeir sem væru kosnir til ábyrgðar þyrftu að sameina krafta sína. Forsetinn væri eini fulltrúinn sem kjörinn væri af þjóðinni allri. Fólkið treysti því að hann brygðist ekki á örlagastundu og það væri einn af hornsteinum lýðræðisins.

Í lok ávarpsins tilkynnti Ólafur Ragnar um þá ákvörðun sína að hann hygðist ekki bjóða sig fram í fimmta skipti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert