Rót við sameiningu ráðuneyta

Haraldur Benediktsson.
Haraldur Benediktsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Eftir sameiningu landbúnaðar -og sjávarútvegsráðuneytanna fyrir nokkru erum við með heilmikinn reynslubanka af því hvað ber að varast, hvað misfórst og hvað var gott því margt var líka gott. En það sem er verst við sameiningu ráðuneyta er allt þetta rót því það tekur langan tíma að setja allt í fastar skorður. Fyrir landbúnaðinn hefðum við þurft að fara að fá meiri festu í stjórnarfarið,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, spurður út í afstöðuna til nýs atvinnuvegaráðuneytis.

„Bændasamtökin og búnaðarþing tóku afstöðu til hugmyndanna um sameiningu í atvinnuvegaráðuneyti  á sínum tíma og mótmæltu þeim. Eins og þá var verið að tala um átti að taka mikilvægar stofnanir undan atvinnuveginum og setja til umhverfisráðuneytis. Eins og því var stillt upp þá var eins og atvinnuvegaráðuneytið ætti að verða einhverskonar undirráðuneyti umhverfisráðuneytisins. Þá var ekki í kortunum að taka efnahags- og viðskiptaráðuneytið inn í þá sameiningu. Núna veit ég ekki hvernig menn eru að hugsa sér þetta nýja atvinnuvegaráðuneyti og því kannski svolítið erfitt að taka afstöðu til þess,“ segir Haraldur.

Haraldur segist ekkert hafa á móti öflugu atvinnuvegaráðuneyti en leggur áherslu á að menn þurfi að passa að gleyma ekki hagsmunum einstakra atvinnugreina. „Í stóru atvinnuvegaráðuneyti þar sem er búið að setja saman andstæða póla, eins og þeim hefur verið stillt upp á undanförnum árum, verslun og landbúnaði, er þetta svolítil sérstök staða. Ég segi ekki að það sé vonlaust en gæti orðið svolítið spennandi,“ segir Haraldur.

„Einhver spurði mig hvort það væri ekki vont að fá Steingrím sem landbúnaðarráðherra en við erum svo vanir því,  þetta er í þriðja sinn sem hann tekur að sér það verkefni. Við höfum ágæta reynslu af samstarfi við hann.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert