Economist: Lýðræði næst mest á Íslandi

mbl.is/Hjörtur

Samkvæmt nýrri úttekt breska viðskiptablaðsins Economist um stöðu lýðræðis í heiminum á nýliðnu ári stóð lýðræði hvergi sterkari fótum en hér á landi að Noregi undanskildum. Af fimm efstu ríkjunum í úttektinni eru fjögur lönd á Norðurlöndum.

Næst á eftir Íslandi í röðinni koma Danmörk, Svíþjóð, Nýja-Sjáland, Ástralía, Sviss, Kanada, Finnland og Holland. Sérstaklega er rætt um að lýðræði hafi hnignað í Evrópu á síðasta ári og er það einkum rakið til efnahagskreppunnar á evrusvæðinu.

Úttektin, sem nær til 165 ríkja í heiminum, byggir á fimm atriðum: Framkvæmd kosninga og fjölda framboða, borgaralegum réttindum, virkni ríkisstjórnar, þátttöku í stjórnmálum og stjórnmálamenningu.

Fram kemur að lýðræði hafi minnkað í sjö Evrópuríkjum á síðasta ári samkvæmt úttektinni. Meginástæða þess hafi verið minnkandi fullveldi ríkjanna og lýðræðisleg ábyrgð ráðamanna þeirra. Fimm þessara ríkja séu evruríki sem glímt hafi við mikla efnahagserfiðleika; Grikkland, Írland, Spánn, Portúgal og Ítalía.

Einkum og sér í lagi segir í úttektinni að þetta eigi við um Grikkland og Írland þar sem lýðræðislega kjörnum ráðamönnum hafi verið skipt út fyrir embættismenn.

„Útlitið í stjórnmálum Evrópu til skamms tíma veldur áhyggjum. Evrópusamruninn stendur frammi fyrir alvarlegri ógn og deilur innan Evrópusambandsins verða sífellt harðari. Harkalegur niðurskurður, ný niðursveifla á árinu 2012, mikið atvinnuleysi og fáar vísbendingar um hagvöxt munu reyna á þol evrópskra stjórnmálastofnana,“ segir í úttektinni.

Úttekt Economist

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert