Staða Samfylkingar í uppnámi

Jóhanna Sigurðardóttir þakkar samfylkingarmönnum stuðninginn eftir að hún var kjörinn …
Jóhanna Sigurðardóttir þakkar samfylkingarmönnum stuðninginn eftir að hún var kjörinn formaður flokksins í mars 2009. Ómar Óskarsson

Fyrir nokkrum vikum hélt Guðni Ágústsson, fv. formaður Framsóknarflokksins, því fram að með tilkomu nýs flokks undir forystu Guðmundar Steingrímssonar yrði Samfylkingin í kjörstöðu til að halda velli sem stærsti flokkurinn í vinstri stjórn. Ný framboð riðla þessari stöðumynd.

Guðni skrifaði þannig grein í Morgunblaðið í október sl., „Leikstjórinn mikli,“ Össur Skarphéðinsson, þar sem hann skrifaði eftirfarandi í niðurlagi:

„Össur veit að Samfylkingin fær aldrei nema 20% fylgi 2013. Jóhanna Sigurðardóttir farin og sennilega er verið að máta Lúðvík Geirsson sem arftaka og krónprins, gott andlit. Og drengur góður eins og Jóhanna. En foringinn Össur öskrar úr hlátri í aftursætinu, þetta plott er líf hans og yndi fyrir utan ESB-tvískinnunginn. Með svona leikfléttu ætlar hann að skapa nýjan flokk með 15 til 20% fylgi og Samfylkingin heldur völdunum 2013 til 2017. Mörður Valgarðsson hefur eignast sinn tvífara eftir eitt þúsund ára hlé. Mörður var slungnastur Njálumanna. Össur er langslungnasti valdapólitíkus okkar daga.“

Síðan hefur margt breyst.

Það fyrsta sem blasir við er að útibú Besta flokksins í landsmálunum með Guðmund í fararbroddi verður, ef af verður, ekki eitt um að sækja fylgi til þeirra kjósenda sem eru orðnir afhuga fjóru flokkunum stóru, Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu, Vinstri-grænum og Framsóknarflokki.

Innanflokkserjur veikja samstarfsflokkinn

Sem kunnugt er náði VG sínum besta árangri frá upphafi í síðustu alþingiskosningum. Klofningur Atla Gíslasonar, Ásmundar Einars Daðasonar og Lilju Mósesdóttur úr flokknum hafa hins vegar veikt hann, sem og átök um „órólegu deildina“ og brotthvarf Jóns Bjarnasonar úr ráðherrastól, svo fátt eitt sé nefnt.

Framboð undir forystu Lilju Mósesdóttur hefur færst nær veruleika og verður að ætla að það taki fylgi frá Vinstri grænum. En það hefði aftur þær afleiðingar að gera stjórnarmyndun með VG erfiðari.

Samfylkingin í lægð

Þriðja atriðið varðar stöðu Samfylkingarinnar. Ef marka má Þjóðarpúls Gallups var stuðningur við flokkinn í nóvember með minnsta móti síðan árið 2007, eða rétt ríflega 20%. Það er langt undir árangri síðustu kosninga þegar Samfylkingin uppskar 29,8% atkvæða. Það markmið að ná jafnstöðu við Sjálfstæðisflokkinn hefur því orðið fjarlægara síðustu misseri. Minnkandi stuðningur við Jóhönnu Sigurðardóttur hjálpar flokknum ekki í því efni.

Fjórða atriðið varðar stöðu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Í Þjóðarpúlsinum í nóvember mældust flokkarnir með 38% og 14,6% fylgi eða samanlagt um 52,6% stuðning. Til samanburðar sögðust þá 21,8% styðja Samfylkinguna og 13,5% VG. Litlu fleiri, eða 33%, sögðust styðja ríkisstjórnina.

Leita nýju framboðin til hægri eða vinstri?

Fimmta og síðasta atriðið tengist fyrirhuguðum framboðum til þingkosninga.

Sem fyrr segir er ólíklegt að framboð Lilju hefði áhuga á þátttöku í ríkisstjórn með núverandi stjórnarflokkum. Sömu sögu er að segja af Hægri-grænum.

Fyrirhuguð framboð Guðmundar Steingrímssonar og ESB-sinna úr Lýðfrelsisflokknum kynnu hins vegar að styrkja Samfylkinguna, enda báðar hreyfingar opnar fyrir ESB-aðild. Á hinn bóginn er ekki ljóst hvaða stefnu bræðingur fólks úr Borgarahreyfingunni, Hreyfingunni, Frjálslynda flokknum, samtökum fullveldissinna og fólks úr fleiri áttum tekur í Evrópusambandsmálum eða til vals á samstarfsflokkum almennt.

Fjöldi kjósenda tilbúnir að róa á ný mið

Það sem upp úr stendur er að 9,7% kjósenda sögðust í síðasta Þjóðarpúlsi tilbúin að kjósa annað framboð en þau fimm sem valið stóð um.

Með tilkomu svo margra nýrra valkosta má ætla að hreyfanleiki atkvæða muni aukast.

Færi svo að ný framboð tækju atkvæði af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki ættu flokkarnir að óbreyttu hins vegar að vera í þeirri stöðu að eiga auðveldast að mynda stjórn.

Skuldamálin efst á baugi

Má í því samhengi til dæmis nefna að flokkarnir gætu boðið Lilju stól fjármálaráðherra. Þá hefur Pétur H. Blöndal viðrað hugmyndir í skuldamálum heimila sem ríma um margt betur við áherslur Lilju og félaga en áherslur núverandi ríkisstjórnar. Er umræða framsóknar um afskriftir á skuldum heimilanna þá ótalin.

Miðað við þá áherslu sem Lilja leggur á skuldamálin sýnist ekki órökrétt að ætla að þau myndu vega þyngst í stjórnarmyndunarviðræðum hugsanlegs framboðs hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert