Draga úr umsvifum vegna skatta

Frá skattafundi í morgun.
Frá skattafundi í morgun. mbl.is/Sigurgeir

Flugfélag Ísland hefur þurft að bregðast við hækkun skatta með því að draga saman í rekstri og minnka þjónustu. Fyrirtækið þarf á þessu ári að greiða 443 milljónir í skatta en greiddi 206 milljónir árið 2009. Á þessu tímabili hefur farþegum fækkað um 2%.

Þetta kom fram í ræðu Boga Nils Bogasonar, framkvæmdastjóra fjármála hjá Icelandair Group, á skattadeginum sem Deloitte stóð fyrir.

Bogi sagði að skattahækkun á innanlandsfluginu væri það mikil að engin leið væri að koma þessum kostnaði öllum út í verðlagið til viðskiptavina. Fyrirtækið ætti því ekki annan kost en að draga úr umsvifum og minnka þjónustuna.

Búið er að leggja á útblástursgjald á flugið í samræmi við stefnumörkun Evrópusambandsins. Bogi sagði að það væri hins vegar líka lagt á kolefnisgjald á það eldsneyti sem flugvélar hér á landi notuðu. Hann sagðist ekki vita um að það væri annars staðar í heiminum lagður á tvöfaldur kolefnisskattur með þessum hætti.

Bogi varaði eindregið við hugmyndum um komuskatt á farþega, en áformað var að taka hann upp árið 2009. Hætt var hins vegar við það, en Bogi sagðist vita til þess að sumir vildu enn reyna að koma slíkum skatti á. Hann sagði að árið 2008 hefði komugjald verið sett á í Hollandi, en það hefði strax leitt til samdráttar á Schiphol-flugvelli í Amsterdam. Gjöldin hefðu því verið afnumin eftir eitt ár. Óháð nefnd hefðu komist að þeirri niðurstöðu að tekjur upp á 1,3 milljarða evra hefðu tapast vegna skattsins.

Bogi sagði að það hefði orðið mikil aukning í ferðaþjónustu á Íslandi á síðustu árum. Icelandair áætlar að farþegar á þessu ári verði um 2 milljónir sem er 50% aukning frá 2004. Icelandair hefur fjölgað starfsmönnum frá 2009 um 430 eða um 20%. Bogi sagði að ferðaþjónustan væri hins vegar áhættusöm atvinnugrein og það ættu eftir að koma niðursveiflur. Þess vegna yrðu stjórnvöld að gæta hófsemi í skattlagningu og leyfa fyrirtækjum að safna fé til að takast á við niðursveiflurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert