Tekur undir með Ögmundi

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Ég er sammála því sem kemur fram í grein Ögmundar í Morgunblaðinu í dag um það hvernig staðið hefur verið að þessu máli,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við mbl.is spurður um afstöðu sína til þingsályktunartillögu sjálfstæðismanna um að landsdómsákæran gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verði dregin til baka.

Ásmundur vísar þar til greinar sem Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, ritaði í Morgunblaðið í dag þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að það hafi verið rangt að ákæra Geir en Ögmundur studdi ákæruna á sínum tíma gegn honum auk þriggja annarra fyrrverandi ráðherra.

Ásmundur segist þó ekki vilja gefa neitt upp að svo stöddu hvaða afstöðu hann kunni að taka til tillögunnar þegar og ef greidd verði um hana atkvæði. Hins vegar væri hann ánægður með að tillagan hefði komið fram enda hefði hann miklar efasemdir um að staðið hefði verið með sanngjörnum hætti að málatilbúnaðinum gegn Geir.

Ennfremur sagði Ásmundur ljóst að atkvæðagreiðslan á Alþingi haustið 2010, þegar ákveðið hafi verið að ákæra Geir en ekki þrjá aðra fyrrverandi ráðherra, hefði byggst á pólitík þar sem ákveðnir þingmenn Samfylkingarinnar hefðu haft að leiðarljósi að hlífa eigin fólki að meira eða minna leyti.

Þess má geta að Ásmundur studdi líkt og Ögmundur ákærur á hendur öllum fjórum fyrrverandi ráðherrunum á sínum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert