Dauði skammbyssuskotfimi

Skotfimi. Mynd úr safni.
Skotfimi. Mynd úr safni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Nýtt frumvarp til vopnalaga markar í raun dauða þriggja af fimm alþjóðlegum greinum skammbyssuskotfimi sem hafa verið stundaðar á Íslandi áratugum saman. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Skotíþróttasambands Íslands (STÍ). Stjórnin hefur óskað eftir fundi með innanríkisráðherra vegna frumvarpsins.

Stjórn STÍ fundaði í gær um drög að frumvarpi til vopnalaga sem birt var á heimasíðu innanríkisráðuneytisins í lok síðustu viku. Í tilkynningu stjórnarinnar segir að mikil óánægja sé á meðal skotíþróttamanna með ákveðin atriði í frumvarpsdrögunum. Takmarkanir sem kveðið sé á um í þeim beinist einvörðungu að íþróttafólki.

Drögin séu að mestu leyti byggð á tillögum sem nefnd á vegum ráðuneytisins hafi skilað á sínum tíma og sátt hafi ríkt um. Í drögunum sé íþróttastarfseminni hins vegar settar verulegar skorður þar sem að stefnt sé að algjöru banni við hálfsjálfvirkum keppnisbyssum. Bannið marki í raun dauða þriggja af fimm alþjóðlegum greinum skammbyssuskotfimi sem stundaðar hafi verið á Íslandi áratugum saman.
 
„Verði frumvarpsdrögin óbreytt að lögum standa einungis eftir loftskammbyssa og fríbyssa en standardbyssa, sportbyssa og grófbyssa heyra sögunni til. Þetta er að mati stjórnar STÍ með öllu óviðunandi og munu athugasemdir STÍ snúa að þessum atriðum,“ segir í tilkynningu stjórnar STÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert