Tónninn sá að rétt sé að framlengja

Miðstjórn Samiðnar tekur ákvörðun um gildi kjarasamninga í fyrramálið.
Miðstjórn Samiðnar tekur ákvörðun um gildi kjarasamninga í fyrramálið. mbl.is/Kristinn

„Mér heyrist tónninn vera frekar á þá lund að við ætlum að framlengja,“ segir Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar, um umræðuna um endurskoðun kjarasamninga. Aðilarfélög Samiðnar hafa fundað um þessi mál að undanförnu.

Finnbjörn segir ljóst að menn séu ekki sáttir við stöðuna en leggja verði heildstætt mat á málið. „Okkar félagsmönnum kemur betur að framlengja en að segja upp núna og stofna til ófriðar og ólgu á vinnumarkaðinum,“ segir Finnbjörn.

Miðstjórn Samiðnar kemur saman í fyrramálið og þar verður tekin sameiginleg ákvörðun sem verður síðan send samninganefnd ASÍ um það hvort veita eigi heimild til að segja upp kjarasamningum eða framlengja samningana.

Formannafundur ASÍ verður haldinn á morgun en þar er fyrst og fremst um samráð að ræða. Hvert samband fyrir sig tekur ákvarðanir um forsendur og gildi samninganna og er endanleg ákvörðun um endurnýjun þeirra í höndum samninganefndar ASÍ og viðsemjendanna í svonefndri forsendunefnd. Sú ákvörðun þarf að liggja fyrir í síðasta lagi fyrir kl. 16 á föstudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert