Uppreisn ef þingmenn styðja tillögu Bjarna

Frá landsfundi Samfylkingar
Frá landsfundi Samfylkingar

Kjartan Valgarðsson, formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, segir að það verði uppreisn innan Samfylkingarinnar í Reykjavík ef þingmenn greiði atkvæði með tillögu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram á Smugunni.

„Það yrði mjög alvarlegur trúnaðarbrestur sem hefði ófyrirséðar afleiðingar fyrir flokkinn.  Í það minnsta mun það leiða til harkalegra átaka sem munu væntanlega endurspeglast í því þegar fólk verður valið á framboðslista með haustinu,“ segir hann við Smuguna í dag.

„Það er hrein og klár spilling að alþingismenn á vitnalista saksóknara ætli að greiða atkvæði um að vísa máli Geirs H. Haarde frá Landsdómi,“ segir Kjartan í viðtali við Smuguna.

Fjallað var um hverjir verði kallaðir fyrir landsdóm á mbl.is í gær.

Í ályktun stjórnar Samfylkingarfélagsins í Reykjavík kemur fram að stjórnin leggst gegn þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar þingmanns um að draga ákæru á hendur Geir Haarde til baka.

„Stjórnin bendir á að skipan þingmannanefndar um skýrslu rannsóknanefndar Alþingis var samþykkt samhljóða á Alþingi. Alþingi tók síðan ákvörðun um að forsætisráðherra hrunstjórnarinnar yrði sóttur til saka til þess að leiða í ljós hver væri ábyrgð stjórnmálaleiðtoga á atburðarásinni. Ljóst er að forsætisráðherrann hlaut að koma þar helst til álita, þótt þingið félli frá saksókn á hendur öðrum ráðherrum stjórnarinnar og fyrnd væru hugsanleg afbrot eða vanræksla fyrri ráðherra.

Bent hefur verið á hversu óeðlilegt það væri að löggjafarvaldið grípi fram í dómsmál, jafnvel þótt þingið hafi staðið að því samkvæmt lögum sem hér hafa gilt óbreytt í tæpa hálfa öld.

Stjórnin bendir ekki síður á að með því að draga ákæruna til baka væri Alþingi að bregðast fyrirheitum um rannsókn og uppgjör eftir hrun. Með því væri gamla samtryggingarkerfið leitt til öndvegis á ný í íslenskum stjórnmálum, öfugt við málflutning Samfylkingarinnar við síðustu alþingiskosningar og raunar allt frá stofnun flokksins fyrir tólf árum.

Stjórnin væntir þess að allir þingmenn Samfylkingarinnar greiði atkvæði gegn þingsályktunartillögunni," segir á vef Kjartans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert