Kynna tillögur um stofnun stjórnmálaflokks

Kristinn Már Ársælsson ásamt syni sínum Húna Breiðfjörð.
Kristinn Már Ársælsson ásamt syni sínum Húna Breiðfjörð.

Fulltrúar Öldu: Félags um sjálfbærni og lýðræði munu kynna tillögur sínar um það hvernig skal standa að stofnun og skipulagi lýðræðislegs stjórnmálaflokks í Grasrótarmiðstöðinni Brautarholti 4 í dag. Fundurinn byrjar kl 13:00 og stendur í tvær klukkustundir.

„Alda: Félag um sjálfbærni og lýðræði, vann tillögu að því hvernig skipuleggja má stjórnmálaflokka, þ.e. innra starf og lög þeirra, út frá hugmyndum um alvörulýðræði til þess að auka lýðræði innan stjórnmálaflokka,“ segir Kristinn Már Ársælsson, stjórnarmaður í Öldu, aðspurður um efni fundarins.

Að sögn Kristins snúast tillögurnar að meginstefnu til um það að ákvarðanir innan flokka verði í auknum mæli teknar af flokksfélögunum. Kristinn segir að ákvarðanir innan stjórnmálaflokka séu í dag að miklu leyti í höndum fulltrúa flokkanna og að þeir fylgi jafnvel ekki einu sinni stefnu eigin flokks. Kristinn bendir jafnframt á að í tillögunum séu hugmyndir um aukna áherslu á að í innra starfi flokka verði komist að sameiginlegri niðurstöðu t.d. með málamiðlunum.

„Það er t.d. enginn formaður í þessum flokki hjá okkur, þetta er meira á svona jafnræðisgrundvelli og gengur út á að færa valdið sem neðst í stjórnmálaflokkinn. Við notum slembival meðal annars til að velja í ýmsar stöður innan flokksins til þess að dreifa valdi og koma í veg fyrir valdasamþjöppun og þess háttar,“ segir Kristinn.

Spurður hvort Alda hyggist stofna sinn eigin flokk segir Kristinn að Alda sé ekki stjórnmálaflokkur og hyggist jafnframt ekki stofna stjórnmálaflokk, um sé að ræða hugmyndavinnu sem hverjum sem er er frjálst að taka upp og nota sjálfur innan síns flokks. „Við hyggjumst kynna þetta fyrir þeim stjórnmálaflokkum sem eru þegar starfandi á næstu vikum,“ segir Kristinn.

Tillögur Öldu má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert