Vill að kosið verði um forseta

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

„Ég styð ríkisstjórnina,“ segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, aðspurður hvort hann styddi þá tvo ráðherra sem kusu gegn því síðastliðinn föstudag að taka af dagskrá Alþingis þingsályktunartillögu um að draga til baka landsdómsákæruna gegn Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Það er Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

Spurður um afstöðu sína til þess hvort Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, eigi að sitja áfram sem forseti segir Mörður að hann vilji að kosið verði aftur til forseta og  staðfestir að hann hafi skrifað sig á undirskriftalista sem Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, er að setja saman gegn áframhaldandi setu Ástu Ragnheiðar.

„Mér finnst reyndar almennt galli að forseti sé ekki kosinn á hverju ári. Ég held að það sé misskilningur, það var þannig áður en þingsköpum var breytt. Ég held að það ætti að breyta þeim þannig aftur,“ segir Mörður ennfremur.

Hann segist ekki telja að málið muni setja ríkisstjórnina sem slíka í uppnám þó það kunni hugsanlega að leiða til erfiðari samskipta. „Við sem vildum koma þessu máli út úr heiminum, ég held að við styðjum öll ríkisstjórnina. Það er ekki sama málið fyrir okkur,“ segir hann og vísar þar til þeirra þingmanna Samfylkingarinnar sem vildu að þingsályktunartillagan yrði tekin af dagskrá þingsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert