Stofnanaveldið ánetjast ESB

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Ómar

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag að hætta væri á að svonefnt stofnanaveldi ánetjaðist Evrópusambandinu.

„Hvernig stendur á því, að alltaf þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins þá er stofnanaveldið, hvort sem það er verkalýðshreyfing, atvinnurekendasamtök, stjórnsýslan, hlynnt en almenningur á móti? Það er vegna þess að búið er að fara með flugvélarfarma viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, út til Brussel þar sem fólk hefst við  á kostnað ríkisins. Þetta fólk ánetjast Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir, meiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þess vegna sem stofnanaveldið ánetjast Evrópusambandinu," sagði Ögmundur.

Hann var að svara fyrirspurn frá Ásmundi Einari Daðasyni, þingmanni Framsóknarflokksins, sem spurði Ögmund hvort hann teldi ekki að bregðast þurfi við þeim þunga, sem Evrópusambandið hefði sett í kynningu og aðlögum hér á landi.

Sagði Ásmundur Einar, að á dagskrá þingfundar í dag væri stjórnartillaga um að veita Evrópusambandinu einskonar skattfrelsi hér á landi og átti þar við þingsályktunartillögu frá utanríkisráðherra um að samþykkja samkomulag um svonefnda IPA-styrki. Þá hefði um helgina verið opnuð Evrópustofa þar sem Evrópusambandið ætlaði að verja stórfé til að kynna eigið ágæti. 

Ögmundur sagðist hafa haldið þeim málstað stíft fram, að Íslendingar ættu ekki taka við aðlögunarstyrkjum frá Evrópusambandinu heldur aðeins styrkjum, sem snéru að tæknilegum atriðum og tengdist aðildarumsókninni sérstaklega, svo sem þýðingarstyrkjum.

Ögmundur sagði, að margir styrkir Evrópusambandsins væru ógeðfelldir og þeim væri haldið mjög stíft að þeim þjóðum, sem sambandið vildi að þýddist sig. Það væru aðilar að Evrópusambandinu, sem fjármögnuðu þessa styrki og  það kæmu Íslendingar til með að gera gangi þeir í Evrópusambandið.

„Það eru margir að fagna þeim peningum sem hingað koma en þetta er veruleikinn, það er einhver sem borgar og það yrðum við sem borguðum ef við gengjum í Evrópusambandið," sagði Ögmundur og bætti við, að innanríkisráðuneytið hefði staðið gegn þeim styrkjum, sem það teldi vera óeðlilega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert