Gagnrýnir málflutning Ögmundar

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is

Framkvæmdastjóri BSRB gagnrýnir málflutning innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem lýsti á Alþingi í gær yfir áhyggjum sínum af því að embættismenn og ríkisstofnanir væru að ánetjast utanlandsferðum í tengslum við aðildarviðræðurnar við ESB.

„BSRB þykir mjög miður hvernig Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra talar um opinbera starfsmenn úr ræðustóli Alþingis. Að halda því fram að embættismenn hins opinbera séu að ánetjast ferðalögum og sæki það hart að komast sem oftast út fyrir landsteinana til þess eins að fá greidda dagpeninga er mjög ómaklegt," er haft eftir Helgu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra BSRB, í frétt á vef bandalagsins í dag.

„Núverandi ríkisstjórn sóttist eftir aðild að ESB en ekki opinberir starfsmenn, sem eru væntanlega aðeins að vinna vinnuna sína eins vel og þeir geta. Sú vinna felst m.a. í því að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar og undir það falla vissulega fundir erlendis vegna umsóknar um aðild að ESB. Málflutningur Ögmundar er því algerlega óásættanlegur, sérstaklega komandi frá manni í hans stöðu," segir hún jafnframt.

Ögmundur var formaður BSRB um árabil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert