Líðan sjómannsins góð

mbl.is/Elín Esther

Líðan  sjómanns, sem bjargað var úr sjónum vestur af Noregi nú síðdegis eftir að íslenskur skuttogari sökk þar í dag, er sögð vera góð eftir atvikum. Flogið var með manninn með björgunarþyrlu til Álasunds.

Anders Bang-Andersen, upplýsingafulltrúi björgunarmiðstöðvarinnar í Suður-Noregi, segir við norska útvarpið að maðurinn hafi verið í flotgalla og verið bjargað um borð í þyrlu þar sem hann var í sjónum.

Verið var að sigla íslenska skipinu til Noregs en það hafði verið selt þangað í brotajárn. Skipið virðist hafa sokkið um 270 kílómetra norðvestur af Stad í Noregi en neyðarkall barst frá neyðarsendi um borð klukkan 13:14 að íslenskum tíma. Tvær Sea King-björgunarþyrlur voru þegar sendar á staðnn frá Florø og Ørlandet og fundu þær sjómanninn fljótt. Fjórir voru í áhöfn íslenska skipsins og er þriggja enn leitað. 

Bang-Andersen segir að vegna þess hve langt sé til lands hafi báðar þyrlurnar þurft að fljúga þangað til að taka eldsneyti. Önnur sé á leið til Álasunds með sjómanninn sem bjargaðist en hin er á leið til Ørlandet.

Orion-eftirlitsflugvél frá norska hernum kom á leitarsvæðið laust fyrir klukkan 18 og mun verða þar við leit meðan eldsneytið dugar. Vélin er búin bæði ratsjá og hitamyndavél. Þá er loðnuskip einnig við leit á svæðinu. Þar er nú fárviðri og afar mikil ölduhæð og því er leitin mjög erfið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert