Illa staðsettir bílar tefja hreinsun

mbl.is/Sigurgeir

Vegna snjóþyngsla er víða illfært í Reykjavík, einkum í húsagötum og á bílastæðum. Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að klukkan fjögur í nótt hafi um 35 tæki Reykjavíkurborgar og verktaka á hennar vegum farið af stað til snjóhreinsunar.

Segir að áherslan sé sem fyrr á helstu umferðaræðar og gönguleiðir, einkum þær sem liggi að biðstöðvum strætó.  Einnig verði snjó rutt af bílastæðum og gönguleiðum við skóla, leikskóla, sundlaugar og aðrar stofnanir borgarinnar. Unnið verði í dag áfram með öllum tiltækum mannskap og tækjum í borginni í  samræmi við viðbragðsáætlanir Reykjavíkurborgar.  Tekið er fram að illa staðsettir bílar tefji fyrir snjóhreinsun.

„Ökumenn eru beðnir um leggja bílum sínum þannig að þeir séu ekki fyrir snjóruðningstækjum. Illa staðsettir bílar hafa tafið hreinsunarstarf og hafa snjóruðningstæki þurft frá að hverfa eða skilja götuna eftir hálfrudda. Í gærkvöldi voru um 37 bílar á Reynisvatnsvegi og þá hafa ruðningstæki átt erfitt með að komast um Hraunbæ vegna bíla sem lagt er við veginn þar sem bílastæði eru illfær. Snjóhreinsun á bílastæðum við fjölbýlishús er í verkahring viðkomandi húsfélags og íbúa.  

Fulltrúar Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru í góðu sambandi við lögreglu, slökkvilið og Neyðarlínuna vegna öryggismála.  Beiðnir frá viðbragðsaðilum fá sérstakan forgang hjá þeim sem stýra snjóhreinsuninni,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert