Rætt um forseta þingsins

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis. mbl/Ómar

Nokkuð var rætt um forseta Alþingis í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun en þar spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, m.a. út í ummæli forsætisráðherra um þingforseta.

Spurði þingmaðurinn forsætisráðherra hvort hún gerði sér grein fyrir því að forseti væri kjörinn og hvort hún myndi lýsa yfir stuðningi við forseta þingsins. Einnig spurði hann hvort ráðherrann gerði sér grein fyrir því að verið væri að safna undirskriftum gegn sitjandi forseta, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur.

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, svaraði því til að undarlegt væri hvernig þingmaður stillti málinu upp, hvernig hann og fjölmiðlar hefðu snúið út úr orðum hennar.

Sagðist Jóhanna aldrei hafa sagt að forseti Alþingis yrði látinn víkja. Sagði hún að stjórn þingsins væri ekki á verksviði sínu og að hún hefði engar breytingar lagt til á því hver sinnti embætti forseta.

Benti Jóhanna enn fremur að þingmaðurinn hefði ekki borið það undir meirihlutann þegar hann ákvað að skipta út varaforseta síðastliðið haust.

Hún sagðist ekki hafa í hyggju að skrifa undir téðan undirskriftalista.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert