Safnkostur lítill og fábreytilegur

Líkan af geirfugli. Myndin var tekin af heimasíðu Náttúrufræðistofnunnar.
Líkan af geirfugli. Myndin var tekin af heimasíðu Náttúrufræðistofnunnar.

Stjórnvöld þurfa að ákveða hvernig haga eigi starfsemi Náttúruminjasafns Íslands til framtíðar og móta skýra stefnu um hana en safnið uppfyllir ekki lögbundnar skyldur sínar sem safn og höfuðsafn að mati Ríkisendurskoðunar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar en þar segir m.a. að annaðhvort verði að efla safnið sem sérstaka stofnun eða sameina það annarri stofnun. Enn liggi ekki fyrir stefna fyrir safnið og starfsemin fari nú fram í óhentugu bráðabirgðahúsnæði.

Þá segir einnig að safnkosturinn sé bæði lítill og fábreytilegur en ástæðan sé m.a. sú að safnið hafi ekki náð samkomulagi við Náttúrufræðaistofnun um skiptingu þeirra náttúrugripa sem hún varðveiti og togstreita og tortryggni hafi ríkt milli stofnananna.

„Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að yfirvöld mennta- og menningarmála taki af skarið um það hvernig starfsemi Náttúruminjasafnsins verði háttað í framtíðinni. Í skýrslunni bent á tvo meginkosti í því sambandi: Annars vegar að efla safnið á núverandi grunni og tryggja að það hafi faglega og fjárhagslega burði til að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Jafnframt þyrfti þá að koma á eðlilegu samstarfi og verkaskiptingu milli safnsins og Náttúrufræðistofnunar. Hinn kosturinn sé að breyta forsendum og umgjörð starfseminnar í grundvallaratriðum. Til greina komi t.d. að sameina Náttúruminjasafnið og Náttúrufræðistofnun og fela sameinaðri stofnun þau sérstöku verkefni á sviði safna- og sýningarmála sem safninu er ætlað að sinna samkvæmt lögum, gera safnið að sérstakri háskólastofnun innan Háskóla Íslands, hugsanlega með aðkomu Náttúrufræðistofnunar, eða endurvekja hugmynd um Náttúruhús,“ segir í frétt um málið á vef Ríkisendurskoðunar.

Þá telji Ríkisendurskoðun mikilvægt að þegar nýjum stofnunum sé komið á fót með lögum sé ávallt tryggt að vilji og stefna stjórnvalda komi skýrt fram, að lög og fjárveitingar séu í samræmi við þann vilja og að ábyrgð og verksvið stofnana skarist ekki óeðlilega mikið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert