Landsdómsmálið fleygur íhaldsins

Frá fundi Samfylkingarinnar í dag.
Frá fundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Eggert

„Látum ekki íhaldið reka fleyg í okkar raðir. Tilgangurinn er auðvitað sá að kalla fram kosningar sem fyrst og koma í veg fyrir að grundvallaratriðin í stefnu okkar jafnaðarmanna um breytt fiskveiðistjórnarkerfi, breytta stjórnarskrá og auðlindastefnu í þágu þjóðarinnar verði að veruleika og þeir geti þar ráðið ferðinni í þágu sinna sérhagsmuna,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, um landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde í setningarræðu sinni á flokkstjórnarfundi flokksins nú í morgun.

Hún sagði að málið væri öllum erfitt og því fylgi djúpstæðar tilfinningar. Það hafi valdið brestum í röðum jafnaðarmanna. Sem formaður Samfylkingarinnar geti hún gefið flokksmönnum sínum það eitt ráð að virða og umbera skoðanir hvert annars í málinu.

„Velkjumst aldrei í vafa um það að nú er unnið  leynt og ljóst víða í þjóðfélaginu að því að koma íhaldinu aftur til valda áður en við jafnaðarmenn náum þessum stóru baráttumálum í höfn. Baráttan um Ísland – hið nýja Ísland og framtíðina er nú í algleymingi. Valda- og varnabandalög sérhagsmuna munu ekki meðan ég fæ einhverju ráðið stoppa okkur. Þar ætlum við að sigra. Eina leið þessara afla til að koma í veg fyrir að við ljúkum ætlunarverki okkar, er að kljúfa okkar eigin ráðir og ala á úlfúð og sundrungu. Heitum því, góðir félagar, að það muni ekki takast,“ sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert