Taka ákvörðun um landsfund

Frá fundi Samfylkingarinnar í dag.
Frá fundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Eggert

Tillaga þar sem lagt er til að framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar hefji undirbúning að landsfundi flokksins sem verði haldinn á vormánuðum 2012, verður tekin fyrir á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar síðdegis.

Er því beint til framkvæmdastjórnar flokksins að undirbúningur fyrir málefnastarf fyrir landsfund hefjist strax á nýju ári.

Í greinargerð sem fylgir tillögunni segir að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafi nýverið lýst því yfir í viðtali í Viðskiptablaðinu að þörf væri á að endurnýja forystu flokksins fyrir næstu kosningar. Bent er á að enginn hafi stigið fram og lýst yfir andstöðu við þessa skoðun.

„Flytjendur þessarar tillögu lýsa stuðningi við þessi sjónarmið og leggja á það áherslu að landsfundurinn fari fram eigi síðar en á vordögum nýs árs. Á fundinum yrði lagður grunnur að stefnumálum Samfylkingarinnar í kosningum 2013.

Við höfum áhyggjur af því að lykiláherslur Samfylkingarinnar um efnahagslegan stöðugleika og uppbyggingu í atvinnumálum séu í uppnámi. Með því að afhenda samstarfsflokknum í ríkisstjórn forræði á þessum málaflokkum er verið að snúa baki við áherslum, stefnumótun og áætlunum Samfylkingarinnar í mikilvægum málum og stefna markmiðum okkar í hættu.

Á umbrotatímum í lífi þjóðarinnar er nauðsynlegt að flokkurinn sé virkur og komi oft saman. Fullt tilefni er til að trúnaðarmenn flokksins taki höndum saman á landsfundi á vordögum og leggi línurnar fyrir þá mikilvægu kosningabaráttu sem framundan er fyrir Samfylkinguna. Við, sem leggjum fram þessa tillögu, erum ósátt við þær breytingar sem orðið hafa á áherslum flokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu og við þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið og kristallast í skorti á samráði og samvinnu,“ segir í tillögunni.

Þeir sem flytja tillöguna eru þau:

Andrés Jónsson
Anna Sigríður Guðnadóttir
Björgvin Valur Guðmundsson
Gunnar Alexander Ólafsson
Íris Björg Kristjánsdóttir
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Soffía Sigurðardóttir
Þorsteinn Ingimarsson
Ýr Gunnlaugsdóttir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert