Færri hyggjast snúa aftur

Hauststemning á bryggjunni í miðborg Osló.
Hauststemning á bryggjunni í miðborg Osló. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ný rannsókn bendir til þess að flestir Íslendingar sem flutt hafa til Noregs muni ekki snúa aftur á næsta áratug. 60% þátttakenda rannsóknarinnar voru í vinnu þegar þeir fluttu og flestir höfðu þeir lokið háskólagráðu.

Rannsóknin sem um ræðir var bakkalárverkefni Hafdísar Halldórsdóttur og Katrínar Þyríar Magnúsdóttur í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík, sem bar titilinn „Eru Íslendingar í Noregi líklegir til að snúa aftur til heimalandsins innan tíu ára?“

Þátttakendur rannsóknarinnar voru 180 talsins og meðalaldur þeirra 37 ár. 59% voru konur en 41% karlar. Náð var til úrtaksins í gegnum samskiptamiðilinn Facebook, á síðum tileinkunum Íslendingum í Noregi.

Í rannsókninni var meðal annars athugað hvers konar störfum fólk væri að sinna í Noregi og voru þau starfsheiti sem mest voru nefnd bílstjóri, félagsliði, kennari, hjúkrunarfræðingur, pípulagningamaður, smiður, verkefnastjóri og verkfræðingur.

Alls þótti 46,1% þátttakenda lífsgæði sín hafa aukist mikið við flutninginn og 35,6% þótti þau hafa aukist. Lífsgæði, tekjumöguleikar og atvinnutækifæri voru helstu ástæður þess að fólk ákvað að flytja til Noregs.

Ein tilgáta rannsakenda var að þátttakendur með háskólamenntun væru líklegri til að snúa aftur innan tíu ára en þetta reyndist ekki rétt. Í ljós kom að þeir sem eru með grunnskólapróf og framhaldsskólapróf eru líklegastir til að flytja aftur til Íslands á næsta áratug.

Mesta athygli vekur þó ef til vill að 50,4% þátttakenda sagðist ekki myndu flytja aftur heim núna, jafnvel þótt þeim byðist svipuð vinna og kaupmáttur væri svipaður og úti. 25,1% sagðist myndu flytja heim en 24,6% voru óákveðnir.

Af þátttakendum fluttu 91% til Noregs á árunum 2008-2011 en 29,3% sögðu mjög litlar líkur á því að þeir myndu flytja hingað aftur á næstu tíu árum jafnvel þótt efnahagsástandið batnaði. 14,4% sögðu litlar líkur á því en 31,1% hvorki né. Aðeins 15,6% sögðu mjög miklar líkur á því.

Samkvæmt rannsókninni eru meðallaun Íslendinga í Noregi rúmar 32 þúsund norskar krónur, eða 676 þúsund íslenskar krónur, og nemur meðalsparnaður þeirra á mánuði um 140 þúsund íslenskum krónum.

Ritgerðin á vefsvæðinu skemman.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert